150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[18:45]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Ingu Sæland, ég held að við getum gert betur. Ég er algjörlega sannfærð um það. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu áðan, sem ég hef heyrt frá fólki sem ég þekki sem vinnur á hjúkrunarheimilum, að þegar við tölum stöðugt um að byggja upp ný hjúkrunarheimili og að það þurfi að fjölga hjúkrunarrýmum segir það bara: Ókei, og hvar ætlið þið að fá fólk í vinnu? Hv. þingmaður kom inn á þetta í ræðunni sinni áðan. Þetta snýst ekki bara um að byggja kassa og hús heldur fyrst og fremst um þjónustuna. Ég veit að við gerum það mjög vel að mörgu leyti varðandi heimaþjónustuna, sums staðar er hún mjög góð en annars staðar miklu síðri og ég held að stór hluti af því sé mönnunarþátturinn sem okkur vantar og svo hin stöðugu átök milli ríkis og sveitarfélaga um hver eigi að greiða hvað. Við verðum að einblína á lausnir þar sem einstaklingurinn fær þá þjónustu sem hann þarf á að halda, óháð því hver greiðir reikninginn á endanum.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á fráflæðisvanda Landspítalans. Vandamálið liggur ekki í því að þeir sem liggja inni á spítölum fái mat þannig að þeir eigi rétt á hjúkrunarrými, það er frekar hvort það sé laust hjúkrunarrými og laust á þeim stað sem fólk kýs að fara á. Það breytir ekki því að ég er algjörlega sannfærð um að á okkar frábæra Landspítala – háskólasjúkrahúsi sé eitthvað mikið að og nokkuð sem hægt er að gera miklu betur, hvort sem það er fráflæðisvandi eða annað. Við getum ekki horft á þetta sem botnlausa hít sem við þurfum alltaf að setja meiri og meiri peninga í af því að alltaf er kallað eftir meiri peningum. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað betur í heilbrigðiskerfinu þannig að þjónustan sé skilvirkari og að við fáum meira fyrir (Forseti hringir.) þá miklu fjármuni sem fara í heilbrigðismálin.