150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

kynning og fjármögnun samgönguframkvæmda.

[10:31]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í dag mun hæstv. samgönguráðherra ætla að undirrita samkomulag við Reykjavíkurborg og nágrannasveitarfélög um gríðarlega umfangsmikil áform á sviði samgöngumála. Ég veit ekki hvort hæstv. fjármálaráðherra mun undirrita þetta samkomulag líka. Það er margt í þessu máli sem vekur furðu en nú er það nýjast að ráðherrann neitar að afhenda samkomulagið eða drög að því og neitar meira að segja að sýna samgöngunefnd þingsins drögin. Einhverjir þingmenn hafa þó fengið kynningu á þessum áformum í formi einhvers konar auglýsingastofuglærusýningar. Það er ljóst að þarna eru áformuð stórkostleg fjárútlát ríkisins til mjög langs tíma og þar af leiðandi er mjög undarlegt að þingið skuli ekki hafa meiri aðkomu að því en raun hefur verið.

Það eru líka áformuð gjaldtaka af íbúum höfuðborgarsvæðisins fyrir það eitt að keyra um göturnar sem fólkið er þegar búið að greiða með sköttunum og öllum þeim gjöldum sem lögð eru á umferð.

Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Ætlar hann að láta þetta gerast? Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík um borgarlínu og verja í það tugum milljarða króna, annaðhvort beint af ríkisfé eða með aukagjaldtöku af íbúum höfuðborgarsvæðisins? Er hæstv. fjármálaráðherra hlutverks síns vegna reiðubúinn að grípa þarna inn í og stöðva þetta þangað til að þingið getur haft aðkomu að málinu, getur a.m.k. fengið kynningu á því hvernig þetta samkomulag lítur raunverulega út?