150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

kynning og fjármögnun samgönguframkvæmda.

[10:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé einhver misskilningur í gangi varðandi það hvað er að gerast. Það er spurt hvort ekki þurfi að grípa inn í til þess að þingið geti haft aðkomu að málinu. Auðvitað eru öll þessi samtöl, yfirlýsing sem til stendur að undirrita í dag, með þeim fyrirvara að það eru lög í landinu um samgönguáætlun. Það gerist ekkert, hvorki varðandi fjárútlát ríkisins né einstakar samgönguframkvæmdir, nema þingið hafi fyrst um það fjallað og samþykkt í samgönguáætlun, í langtímaáætlun um ríkisfjármál, í fjárlagagerð o.s.frv.

Hér er fjallað um borgarlínu. Hvað er borgarlína í huga hv. þingmanns? Ég get sagt fyrir mitt leyti að þetta er samgönguás um borgina þar sem eru nýtt öll tækifæri til að bæta við aukaakreinum þannig að þangað megi fleyta almenningssamgöngum. Þar verði líka hægt að koma hópferðabílum, leigubílum og eftir atvikum, ef menn ákveða að gera það þannig í þágu greiðari umferðar, bílum sem eru með þremur eða fjórum farþegum o.s.frv.

Miðað við þá umferðarstíflu sem við erum að upplifa í dag held ég að menn ættu að taka því fagnandi að verið sé að fara í sérstakt átak, ráðast í átak til þess að greiða fyrir betri samgöngum í höfuðborginni og í kringum hana með þeim áformum sem er að finna í viðkomandi samkomulagi sem verður undirritað í dag af hálfu ríkisins til að marka stefnuna til framtíðar. Vandinn er sá að það hefur verið algert framkvæmdastopp á höfuðborgarsvæðinu og nú á að snúa því blaði við og ráðast í miklar aðgerðir til að leysa vanda sem allir sjá að ekki er hægt að horfa aðgerðalaus á lengur.