150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

kynning og fjármögnun samgönguframkvæmda.

[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur komið auga á kjarnaatriði málsins sem er það að að sjálfsögðu verður þingið spurt. Þingið ræður á endanum, t.d. því hvort komið verði á fót félagi sem muni mögulega fá heimild til að innheimta gjöld sem væru þá hluti af breyttri gjaldtöku af umferð í landinu sem við höfum áður rætt í þessum sal að við stöndum frammi fyrir að breyta. Þetta er einfaldlega hluti af þeirri þróun sem á sér stað, að við tökum lægri gjöld við innflutning á ökutækjum. Við munum sjá í framtíðinni færri bíla fara á eldsneytisstöðvar og taka með þeim hætti þátt í að greiða fyrir framkvæmdum í samgöngukerfinu okkar, þ.e. eldsneytisgjöldin munu gefa eftir sem gjaldstofn. Þetta eru bara spennandi tímar og ekkert að óttast í því. Í þessu máli er ekkert annað fram undan en betri framtíð, greiðari samgöngur, minni umferðartafir, betri almenningssamgöngur, fleiri hjólastígar og betra samfélag. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin er að skuldbinda sig til þess eins að leggja þessar tillögur fyrir þingið og ræða þær þar.