150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

endurskoðun á ráðstöfun almannafjár við gæðastýringu í sauðfjárrækt.

32. mál
[12:58]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp til að gera nokkrar athugasemdir við þessa þingsályktunartillögu sem mér finnst reyndar alveg með ólíkindum. Mér finnst þetta vera hálfgerð aðför að bændum, starfsemi þeirra og því starfi sem þeir hafa unnið sem gæslumenn lands. Mér finnst þetta mál flutt af hálfgerðri vanþekkingu um það. Þegar gæðastýringarkerfið var tekið upp í landbúnaði og sauðfjárrækt var meiningin að þetta yrði kortlagt eftir því hvernig landnýting væri. Það var ekki gert vegna þess að önnur verkefni voru sett í gang um landgræðslu sem bændur hafa staðið að um áratugaskeið í samvinnu við Landgræðsluna. Oft hefur Landgræðslan heldur ekki staðið sig í því hlutverki sem henni hefur verið ætlað.

Ég ætla að nefna nokkur verkefni sem bændur hafa staðið að hvað varðar landgræðslu í landinu. Þar má nefna Bændur græða landið, landbótaþætti gæðastýringar sem hafa unnið ótrúlegt afrek í endurheimt lífmassa og beitilands. Þá er ekki enn búið að tiltaka landgræðslustörf bænda sem hafa verið bundnir við slík verkefni og lagt mikið á sig til að bæta land og auka, framtíðinni til heilla. Um 600 bændur eru þátttakendur í verkefninu Bændur græða landið og um 25 landbótaáætlanir eru unnar samhliða vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Þeir aðilar sem stundað hafa landgræðslu hafa oft á tíðum lagt til mannskap og tæki á sinn eigin kostnað til verkefnanna og er þar um umtalsverðar upphæðir að ræða. Landgræðslan hefur á móti kostað áburð og fræ til verkefna þar sem því hefur verið við komið. Samvinna í þessum verkefnum hefur borið ríkulegan ávöxt. Það má nefna að bændur hafa ekki hag af því að ganga á landsins gæði. Þvert á móti er hagur þeirra að bæta land og landgæði. Það er bara liður í þeirra starfsemi. Skynsamleg nýting til beitar bætir landkosti íslenskra sveita. Bændur eru stöðugt meðvitaðri um bætta búskaparhætti og hafa unnið markvisst að landbótum í samræmi við ráðgjöf Landgræðslunnar á þeim svæðum þar sem þess hefur þurft við. Hins vegar verður að segjast að skort hefur á að Landgræðslan hafi sinnt upprunalegu hlutverki sínu sem var að græða upp land og endurheimta lífmassa. Skynsemin hrópar á að Landgræðslan hvetji til landbóta frekar en að standa í hreinum hótunum við bændur, að hún efli og treysti enn frekar þau verkefni sem unnin hafa verið í samvinnu, enda höfum við þann grunn til að byggja á til framtíðar.

Annað verkefni sem mig langar til að nefna er verkefnið GróLind. Því verkefni var komið á fót í tíð þáverandi hæstv. landbúnaðarráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það var að frumkvæði Landssamtaka sauðfjárbænda. Þegar búvörusamningurinn var undirritaður 2016 voru 300 millj. kr. lagðar í 10 ára verkefni til að vakta og meta ástand gróðurs og jarðvegsauðlinda á Íslandi. Tilgangurinn er m.a. að skjóta styrkari vísindalegum stoðum undir beitarstýringu með það fyrir augum að sauðfjárbændur yrðu sjálfbærir til framtíðar. Þetta er í tíð ráðherra sem er einn flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu. Þetta verkefni hefur verið unnið síðan og farið var af stað með vöktun á þessum árum, 2017–2019, á ástandi vistkerfa og þróun sem hófst í sumar. Í byrjun var lögð áhersla á að vakta afrétti og óræktuð heimalönd sem nýtt eru til beitar. Niðurstöður vöktunarinnar verða svo nýttar til að þróa sjálfbærnivísa en einnig verður fyrirliggjandi þekking nýtt og aukið á nauðsynlega þekkingu með rannsóknum. Þetta og fleiri til eru allt verkefni sem stuðla að því að græða upp landið, beita skynsamlegar á beitiland og öðru sem snýr allt að tilganginum með þessari þingsályktunartillögu — en markmið þingsályktunartillögunnar er náttúrlega að gera afkomu bænda enn minni og gera lítið úr vinnu þeirra við landgræðslu í gegnum árin.