150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

atvinnuþátttaka 50 ára og eldri.

[13:52]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að koma þessu máli á dagskrá. Ég er karl kominn yfir miðjan aldur sem hef aldrei orðið atvinnulaus og hef þar af leiðandi ekki reynt á eigin skinni hvaða áhrif atvinnuleysi hefur á fólk. Atvinna er ekki bara öflun tekna, atvinna hefur líka mikið félagslegt gildi og við erum félagsverur, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Atvinna er líka eitthvað sem gerir mann að nýtum samfélags- og þjóðfélagsþegni.

Ef ég tala fyrir sjálfan mig er mér það nauðsynlegra en áður að gera gagn í samfélagi okkar. Líka það að sú reynsla sem lífið hefur kennt mér hingað til nýtist mér í vinnunni, ekki síst á hinu háa Alþingi.

Frægur maður sagði eitt sinn: Ekki spyrja hvað þjóðfélagið getur gert fyrir þig heldur segja: Hvað get ég gert fyrir þjóðfélagið? Fólk sem er komið yfir miðjan aldur hugsar margt hvert svona en hverjar eru orsakir þess að fólk sem komið er yfir miðjan aldur á erfiðara með að fá vinnu? Mér var bent t.d. á eitt atriði, að þegar verið er að vinna úr atvinnuumsóknum er oft horft á kennitölu viðkomandi en víða erlendis fylgja upplýsingar um kennitölu eða aldur ekki með atvinnuumsókn, þ.e. viðkomandi er ekki krafinn upplýsinga um aldur.

Það er athyglisvert að fjórðungur atvinnulausra er fólk komið yfir miðjan aldur. Atvinnuleysi er hættulegt, bæði andlega og líkamlega. Hugsanlegar afleiðingar af fjölgun atvinnulausra sem eru komnir yfir miðjan aldur eru að mesta fjölgun örorkulífeyrisþega, ekki síst kvenna, er meðal fólks komið yfir 50 ára, 42%. Samkvæmt norrænni rannsókn býr fólk sem komið er yfir miðjan aldur yfir þeirri lykilþekkingu sem hver vinnustaður (Forseti hringir.) þarf á að halda. Það er minnst frá vegna veikinda, sýnir mesta trúmennsku á vinnustað og mesta framleiðni. Hvernig stendur á því að þessi þróun er þá í gangi? Fólk komið yfir miðjan aldur býr yfir þekkingu og reynslu sem er ómetanleg.