150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

atvinnuþátttaka 50 ára og eldri.

[13:55]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Atvinnuþátttaka fólks eftir 50 ára aldur er hér til sérstakrar umfjöllunar og vil ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir að vekja máls á þessum málefnum. Það er staðreynd að framtíðarvinnumarkaður á Vesturlöndum er að breytast þannig að sá hópur sem er 55 ára og eldri verður þrisvar sinnum stærri en yngri hópurinn. Á sama tíma mun aldur skipta miklu minna máli en hvað fólk kann og hvað það getur. Áður var starfstími einstaklings línulegur eða þriggja fasa starfsferill. Fyrst fór fólk í nám, eða ekki, svo fékk það starf og síðan var gullúrið. Það var tiltölulega vel skilgreint. Nú verður starfsferillinn frekar eins og völundarhús. Fólk kemur og fer inn og út af vinnumarkaði. Fyrst er nám, starf, svo aftur nám og starf og þannig áfram. Aldurinn skiptir ekki öllu máli heldur þekking og geta og vinnumarkaðurinn verður að taka mið af því.

Störfin taka breytingum þannig að þekking og símenntun skiptir sífellt meira máli. Aðgengi að símenntun, annaðhvort til lengra eða skemmra náms, og starfsnám skiptir miklu meira máli á meðan við erum að ganga inn í fjórðu iðnbyltinguna.

Sá hópur sem hér um ræðir er sá hópur sem býr yfir þekkingu og er stöðugur á vinnumarkaði, börnin komin af hendi og fólk er frjálsara. Að sama skapi hefur hann meiri þörf fyrir sveigjanleika, bæði hvað varðar vinnutíma, hvar fólk vinnur og á hvaða tíma, allt sem fjórða iðnbyltingin býður upp á.

Störf án staðsetningar, sveigjanlegur vinnumarkaður og aðgengi að símenntun eru lykilatriði sem þarf að undirbúa betur. Sveigjanleiki skiptir máli þegar líður að starfslokum. Það er því bæði á ábyrgð einstaklinga og vinnumarkaðarins að þjálfa og viðhalda atvinnuhæfni til að nýta þá þekkingu sem býr í öllum aldurshópum. Sveigjanleiki getur verið það hvar fólk vinnur og á hvaða tíma.