150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu.

38. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér öðru sinni fyrir þingsályktunartillögu um mótun stefnu sem eflir fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu. Styttri útgáfa nafnsins væri innflytjendastefna. Tillaga þessi var áður flutt á 149. löggjafarþingi og er nánast óbreytt. Flutningsmenn eru allir þingmenn Samfylkingar, sá sem hér stendur og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðmundur Andri Thorsson, Helga Vala Helgadóttir, Logi Einarsson og Njörður Sigurðsson.

Tillagan hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela félags- og jafnréttismálaráðherra í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra að móta stefnu fyrir einstaklinga og fjölskyldur af erlendum uppruna sem hafi það að markmiði að auka gagnkvæman skilning og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Sérstök áhersla verði lögð á félagsleg réttindi, heilbrigðisþjónustu, menntun og atvinnuþátttöku þannig að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir lífi án mismununar. Ráðherra kynni stefnuna fyrir Alþingi í upphafi 151. löggjafarþings.“

Í greinargerð með tillögunni eru reifaðar helstu ástæður þess að stefnumótun í málaflokknum er lögð til. Enn fremur er fjallað nokkuð um þær aðstæður sem nú ríkja í þessum kima mannlífsins á Íslandi. Þar vega auðvitað þyngst atriði sem lúta að menntun, fræðslu, atvinnu, félagslegum réttindum, almennri aðlögun að samfélaginu og velferð. Um nýliðin áramót voru hátt í 44.000 innflytjendur skráðir á Íslandi og hafði þeim fjölgað um 7.700 frá næsta ári á undan. Þeim hefur fjölgað frá árinu 2012 úr því að vera 8% mannfjöldans upp í það að vera 12,6%. Sama þróun heldur að öllum líkindum áfram. Samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda um 13,9% af mannfjöldanum og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Við nálgumst hratt það hlutfall sem að meðaltali ríkir víðast í Evrópulöndum. Innflytjendur á Íslandi og fjölskyldur þeirra koma víða að, frá öllum heimshornum, má segja, en fulltrúar frá nærri 170 löndum eru um þessar mundir með búsetu á Íslandi.

Herra forseti. Það eru tæplega 260 milljónir manna á faraldsfæti í heiminum, einstaklingar sem eru að leita sér að tryggu viðurværi og öruggari framtíð fyrir sig og börnin sín. Hvati þessa getur verið efnahagslegur, veðurfarslegur eða að óöld ríki í kringum fólk. Mörg Vesturlanda eiga erfitt með að þvo hendur sínar af ábyrgð sem þau bera á slæmu ástandi víða í heimalöndum farandfólks, beint og óbeint. Því ber okkur að sýna skilning og umburðarlyndi og leggjast á árarnar með uppbyggilegum hætti. En gerum við það? Nei, við höfum tilhneigingu til þess að slá úr og í. Raddir sem ala á tortryggni og ótta gera sig gildandi. Eigum við markvissa stefnu um hvernig við tökum á móti aðkomufólki sem vill setjast hér að? Nei, hún er gloppótt. Sumt er í algjöru skötulíki, hvort sem um er að ræða börn, nemendur eða vinnandi fólk.

Áskorun er fólgin í þessum gríðarlegu fólksflutningum milli landa, mikil tækifæri og ein stærsta áskorun alþjóðasamfélagsins. Samkvæmt skilgreiningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna flytja langflestir innflytjenda eða farenda, kannski í kringum 90%, búferlum að eigin ósk. Ástæðan er sú að fólk er að leita sér að betra og hagkvæmara viðurværi eða finnur ekki vinnu við hæfi á sínum heimaslóðum eða að vinna er ekki í boði. Þau 10% sem eftir standa skilgreinast sem flóttamenn og hælisleitendur sem flytja til annarra landa undan ofsóknum, hótunum og átökum. Nú er talað um að rétt u.þ.b. helmingur af farendum og flóttamönnum fari frá svokölluðum þróunarlöndum yfir til þróaðra ríkja.

Meiri hluti innflytjenda á faraldsfæti hefur lokið einhvers konar menntun áður en þeir setjast að á nýjum stað. Móttökulöndin ættu að njóta og njóta auðvitað ávinnings af því. Um 35% innflytjenda á heimsvísu hafa lokið háskólamenntun eða sérhæfðri fagmenntun en það er hins vegar vel þekkt að menntun fæst seint og illa viðurkennd og metin í móttökulandi og þar er Ísland ekki undanskilið. Reynsla Íslendinga af fólksflutningum á milli landa ætti að vera jákvæð í ljósi eigin sögu og flutninga og kemur manni í hug ljóðlínan: „Þótt þú langförull legðir / sérhvert land undir fót.“ Bæði á það við um fyrri tíma og á allra síðustu árum. Svokallaðar vesturferðir Íslendinga eru merkilegur þáttur og merkilegt tímabil í sögu þjóðarinnar en þá fluttust sennilega um 6.500 manns til Norður-Ameríku á bilinu frá 1870 fram yfir aldamótin, til 1914 eða kannski lengur. Þetta var hluti af stærri og meiri þjóðflutningum sem áttu sér stað frá Evrópu til Ameríku en talið er að um 52 milljónir hafi flust yfir hafið á þessu tímabili. Ástæður vesturferða Evrópubúa voru margar en þær voru fátækt, þröngbýli, ófrelsi og jafnvel hungur. Fólk var að freista gæfunnar, leita sér betra viðurværis í landi tækifæranna þar sem hvorki var spurt um ætt né stöðu heldur dugnað og áræði. Langflestir Evrópubúar hafa komið sér fyrir í Bandaríkjunum en Íslendingar lögðu leið sína til Kanada.

Í efnahagshruninu bar það sama við, þúsundum saman fluttust Íslendingar til útlanda. Margir hafa snúið heim en aðrir hafa fest rætur í útlöndum, leitað sér menntunar og fengið atvinnu við hæfi, bundist fjölskyldu- og vinaböndum. Það eru nærri 47.000 Íslendingar skráðir með búsetu í útlöndum um þessar mundir. Auðvitað eru flestir á Norðurlöndum en íslenska ríkisborgara er að finna úti um allt, í t.d. 118 ríkjum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. En þeir eru einfarar víða. Í 20 ríkjum er skráður einn Íslendingur. Þannig að við förum víða — „víða flækist frómur.“ Upp úr stendur að reynsla innflytjenda um allan heim er sú að þeir mæta oftar en ekki fyrirstöðu í einhverri mynd í sínu nýja samfélagi. Þetta hefur verið staðfest með rannsóknum, bæði erlendum rannsóknum og íslenskum. Fjölmenningarsetur hefur skoðað þetta og Mannréttindaskrifstofan líka.

Mikið er rætt og ritað á okkar tímum um hlutskipti og aðlögun innflytjenda í heiminum. Rauði þráðurinn í umræðunni um aðlögun er alltaf sá sami og hann er þríþættur. Það er viðhorf heimamanna, þeirra sem eru á fleti fyrir. Það ræður miklu um hvernig gengur að aðlagast samfélaginu — og samfélaginu að aðlagast viðkomandi því að þetta er tvíþætt. Þetta er eitt. Annað er að fram fari uppbyggileg, skipuleg samfélagsumræða um málefni farenda, innflytjenda og flóttafólks. Þá umræðu þarf hið opinbera, stjórnvöld, að leiða. Í þriðja lagi er líka rætt um að mikilvægt sé að til séu skilgreindir langtímaferlar, það sé til stefna og að sú stefna sé virt. Þetta eru taldir mikilvægir lyklar. Auðvitað þurfa hinir nýju landar að hafa greiðan aðgang að öllum kerfum samfélagsins, hvort sem það er menntakerfið, vinnumarkaðurinn, húsnæðiskerfið, heilbrigðisþjónustan, íþrótta- og æskulýðsstarf eða aðrir mikilvægir samfélagspóstar. Í þessu efni er víða pottur brotinn. Síðan þurfum við auðvitað að leggjast í miklu öflugri umræðu um það hvað felist í hugtakinu fjölmenningarlegt samfélag. Við erum svolítið vængbrotin hvað það varðar að eiga hugtök sem nýtast í þessari umræðu. Við tölum oft, eins og ég nefndi áðan, um aðlögun að samfélaginu, aðlögunarstefnu. Við verðum að hafa í huga að það er tvíþætt hugtak. Bæði verðum við að aðlaga okkur að nýjum háttum og hinir nýju landar ættu að þurfa að gera það líka. Þetta er tvíþætt. Hinn viðtekni og almenni skilningur hvað varðar fjölmenningu er sá að aðfluttir Íslendingar og afkomendur þeirra skuli eiga ríkan þátt í og möguleika á að móta okkar góða og réttláta samfélag. Raunveruleg viðurkenning á mikilvægi innflytjenda er meginstef í aðlögunaráætlun í málefnum innflytjenda. Enn á ný erum við svolítið vængbrotin hvað varðar hugtakanotkun.

Við eigum á Íslandi mikilvægt stoðkerfi í málaflokknum sem hefur fest sig í sessi. Alþingi hefur sett ýmis lög um málefni sem tengjast innflytjendum. Árið 2016 var samþykkt þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til ársins 2019, sem nú er að líða, og við vitum ekki hvað tekur við. Þessari framkvæmdaáætlun var fylgt eftir í nokkrum atriðum. Hún er í fimm liðum en það vantar nokkuð upp á að hún hafi gengið eftir í meginatriðum. Á síðasta þingi var síðan samþykkt að komið yrði á fót ráðgjafarstofu innflytjenda í samvinnu við nokkra aðila á sveitarstjórnarstigi og á vettvangi ríkisins til að veita ráðgjöf og upplýsingar til innflytjenda um þjónustu, réttindi og skyldur. Ráðherra mun kynna hvernig þetta gangi núna í janúar 2020. Allt er þetta af hinu góða, styrkir umgjörð málaflokksins og bætir viðmót gagnvart nýjum Íslendingum. Við eigum auðvitað rótgróna stofnun sem hefur tekist á við verkefni sín eftir föngum en hún hefur ekki fengið til þess fjárhagslegt svigrúm. Það er Fjölmenningarsetrið á Ísafirði. Von allra er að það takist að hnýta saman starf Fjölmenningarsetursins á Ísafirði og hinnar nýju ráðgjafarstofu innflytjenda og að þetta verði ein stofnun þar sem er haldist hönd í hönd við að framkvæma mikilvæg verkefni.

Eins og getið er um í greinargerðinni eru þrjú meginstef, menntun, atvinnustefna og velferðarmál, sem hljóta að vera efst í huga þegar um nýja Íslendinga er að ræða. Menntunin gildir jafnt um fullorðna sem börn af erlendum uppruna. Við þurfum að huga að þessum atriðum vandlega. Það þarf að leggja höfuðáherslu á virkt tvítyngi í öllu skóla- og frístundastarfi. Sömuleiðis þarf að sýna uppruna og reynsluheimi barna og ungmenna virðingu í verki. Þegar kemur að framhaldsskólanámi er auðvitað áhyggjuefni að börn fólks af erlendum uppruna sækja síður nám í framhaldsskóla og af þeim fámenna hópi útskrifast enn lægra hlutfall. Þetta er áhyggjuefni. Margir innflytjendur hafa menntun, reynslu og kunnáttu sem ekki er viðurkennd, eins og ég nefndi áðan. Varðandi atvinnuna verðum við að tryggja að innflytjendur sitji við sama borð og Íslendingar. Þar er pottur brotinn. Atvinnuleysi meðal innflytjenda er hærra en hjá öðrum hópum. Okkur ber að efla fræðslu, bæði meðal atvinnurekenda og innflytjenda. Við höfum horft upp á átakanleg dæmi á síðustu mánuðum um hversu mikill misbrestur er í þessu efni. Velferðarmálin eru samofin fjölmörgum samfélagsþáttum. Og eitt mikilvægasta og flóknasta verkefni samfélagsins er að vinna gegn fordómum og að upplýstri umræðu. Það er nú það sem öllu skiptir.

Herra forseti. Niðurstöður kosninga í mörgum Evrópuríkjum síðustu misserin gefa til kynna að uppgangur og útbreiðsla öfgaafla sem ala á þjóðernishyggju og andúð á útlendingum og fjölmenningu sé staðreynd. Hér á landi hafa slík sjónarmið einnig fengið hljómgrunn og jafnvel mátt heyra enduróm þeirra hér í þingsal. Í mörgum ríkjum hafa flokkar sem tala fyrir útlendingaandúð komist í áhrifamiklar stöður, á þing og í sveitarstjórnir, og í sumum ríkjum hafa fulltrúar þeirra jafnvel komist í leiðtogastöður.

Virðulegur forseti. Á Norðurlöndum er að finna samkeppnishæfustu samfélög í heimi með jafnrétti, velferð og samfélagslega ábyrgð í fyrirrúmi. Ríki Norðurlanda hafa einnig verið í fararbroddi í málefnum innflytjenda. Að bæta stöðu innflytjenda á Íslandi og móta stefnu á þessu sviði er réttlætismál, mannúðarmál og menningarlegt atriði en líka mikilvægur þáttur í uppbyggingu fjölmenningarlegs samfélags sem eflir mannauð, eykur fjölbreytni og hagsæld. Hvort tveggja stuðlar að meiri sköpun, fjölþættari menningu, víðsýni, virkjun hugvits, samfélaginu til góðs.