150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

73. mál
[15:23]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Þessa þingsályktunartillögu flytja ásamt mér Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jón Þór Ólafsson, Smári McCarthy, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Vala Helgadóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Þorsteinn Víglundsson.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirrita og fullgilda fyrir Íslands hönd þriðju valfrjálsu bókunina við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 19. desember 2011 og hefja án tafar undirbúning innleiðingar hennar hér á landi og ljúka innleiðingunni fyrir vorþing 2021.“

Tillaga þessi hefur áður verið lögð fram á 148. og 149. löggjafarþingi og er nú endurflutt með minni háttar breytingum, aðallega með breyttum dagsetningum. Þriðja valfrjálsa bókunin við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna snýst um að skilgreina samskipta- og kæruleið fyrir börn. Bókunin gerir börnum og fulltrúum þeirra kleift að áfrýja sérstökum málum til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. 51 land hefur undirritað bókunina og 44 lönd hafa fullgilt hana. Nú síðast fullgilti Palestína bókunina 10. apríl 2019.

Þriðja valfrjálsa bókunin við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins veitir börnum og fulltrúum þeirra heimild til að fara með mál til barnaréttarnefndarinnar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Barnasáttmálinn var um langt skeið eini alþjóðlegi mannréttindasamningurinn án alþjóðlegs eftirlitsaðila sem hægt var að beina einstaklingskæru til ef aðildarríki var ekki talið uppfylla skyldur sínar samkvæmt ákvæðum sáttmálans. Með gildistöku bókunarinnar í apríl 2014 var stigið stórt skref í mannréttindabaráttu barna og felur bókunin í sér viðurkenningu á því að sjálfstæð mannréttindi barna séu virt. Hefur því m.a. verið haldið fram að bókunin sé stærsti sigur í réttindabaráttu barna frá gildistöku barnasáttmálans. Afar mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hefji undirbúning að undirritun og fullgildingu bókunarinnar sem fyrst. Grípa þarf til aðgerða sem miða að því að gera börnum kleift að leita réttar síns með virkari hætti hér á landi. Þetta mætti gera með sérstöku átaki þar sem stjórnvöldum og úrskurðaraðilum væri boðin fræðsla um þær kröfur sem barnasáttmálinn gerir um þjónustu við börn og sjálfstætt aðgengi þeirra að upplýsingum og ráðgjöf. Mikilvægt er að íslenska ríkið fullgildi bókunina og styrki þannig sjálfstæð réttindi barna, og fjallaði umboðsmaður barna m.a. um þetta í ársskýrslum sínum og skýrslu um helstu áhyggjuefni sem gefin var út sumarið 2017. Þá gáfu umboðsmenn barna á Norðurlöndunum út samnorræna yfirlýsingu í október 2014 þar sem þeir hvetja ríkisstjórnir Norðurlandanna til að styrkja mannréttindi barna með því að undirrita og fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina. Þar er einnig áréttað mikilvægi þess að börn geti leitað réttar síns og farið með mál til barnaréttarnefndarinnar. Finnland og Danmörk hafa nú þegar fullgilt bókunina.

Ísland stendur tiltölulega framarlega í alþjóðlegum samanburði í því að tryggja mannréttindi barna og brýnt er að grípa til aðgerða til að halda þeirri stöðu. Einn helsti kostur þess að fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina er sá að þá gæfist börnum hér á landi kostur á að leita til alþjóðlegs eftirlitsaðila sem mæti hverju sinni hvort íslensk löggjöf og framkvæmd væri í samræmi við ákvæði barnasáttmálans. Slíkt er afar mikilvægt í ljósi sjálfstæðra mannréttinda barna og jafnframt valdeflandi fyrir börn, enda um að ræða sjálfstæðan rétt þeirra. Með lögfestingu barnasáttmálans stigju íslensk stjórnvöld mjög mikilvægt skref í átt að aukinni mannréttindavernd barna. Með því að undirrita og fullgilda þriðju valfrjálsu bókunina og opna fyrir kæruleið barna og fulltrúa þeirra til barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna væri skrefið stigið til fulls.

Á heimasíðu umboðsmanns barna er fjallað aðeins um barnaréttarnefndina, þar er tiltekin nefnd um réttindi barnsins í Genf, og að aðildarríkjum beri að skila nefndinni skýrslu á fimm ára fresti um framkvæmd barnasáttmálans í hverju landi. Ísland hefur sent þrjár skýrslur til nefndarinnar og fengið álit til baka um hverju er ábótavant. Næsta skýrsla ætti að birtast hvað úr hverju.

Mér finnst mjög áhugavert, herra forseti, að Ísland sé með fulltrúa í þessari barnaréttarnefnd en Ísland leyfir okkur ekki, börnum og fulltrúum þeirra, að kæra til þeirrar nefndar þrátt fyrir að Ísland sé með fulltrúa, Braga Guðbrandsson, í þeirri nefnd. Einungis sú staðreynd að við hreykjum okkur af því að vera með fulltrúa í þeirri nefnd en leyfum börnum og fulltrúum þeirra ekki að sækja mál sín þangað ætti að vera augljós leiðsögn fyrir okkur að klára þriðju valfrjálsu bókunina. Málið þarf ekki að vera flóknara en það. Við tökum fullan þátt í þeirri nefnd með því að hafa fulltrúa þar en leyfum Íslendingum ekki að fara með mál sín til hennar. Munurinn þar og kaldhæðnin að vissu leyti er dálítið sár, en ég treysti því að hv. utanríkismálanefnd klári málið — þetta er í þriðja sinn sem málinu er vísað til nefndar, alla vega mælt fyrir því — og komi með það hingað og að við klárum það á örskotsstundu.