150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

undirritun og fullgilding þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

73. mál
[15:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir framsöguna og fyrir þrautseigjuna. Eins og kom fram hefur málið verið lagt fram áður og mælt fyrir því. Þingsályktunartillagan, sem er ekki sérstaklega flókin og varðar mikilvæg réttindi barna, hefur verið flutt tvisvar sinnum áður og er nú flutt í þriðja sinn. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að svona mál, sem er mjög einfalt í framkvæmd og varðar mikilvæg réttindi, eins og framsögumaður fór vel yfir í ræðu sinni, skuli ekki renna í gegnum Alþingi. Þrátt fyrir að við séum alls konar hérna og með margvíslegar skoðanir þá held ég að fáir finnist hér inni sem eru á móti þessu máli.

Þar erum við komin aftur að því sem við í Samfylkingunni höfum verið iðin við að tala um, bara frá því að flokkurinn var stofnaður, þ.e. mikilvægi þess að mál fái að lifa á milli þinga. Ég veit að aðrir flokkar hafa tekið það upp í málflutningi sínum á seinni árum. Mér finnst þetta mál einmitt vera þess efnis, það að við séum búin að fullgilda barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, binda hann í lög, en ekki klára málið, er í rauninni trassaskapur en ekki vegna pólitískrar andstöðu.

Ég skora á hv. þingmenn sem eru í þeirri nefnd sem málið fer til, sem mér skilst að sé allsherjar- og menntamálanefnd, (Gripið fram í: Utanríkismálanefnd.) hv. utanríkismálanefnd, að koma þessu máli í eitt skipti fyrir öll í gegn og það þarf ekki að bíða til þingloka með það. Það má bara koma þessu máli í gegn, þetta er þess háttar mál. Ég mun a.m.k. ýta á fulltrúa Samfylkingarinnar að greiða leið málsins og þrýsta á að það verði afgreitt svo við þurfum ekki að vera að ræða það á næsta þingi líka.