150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

fullur aðskilnaður ríkis og kirkju og ný heildarlöggjöf um starfsemi trú- og lífsskoðunarfélaga.

128. mál
[15:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fínustu framsögu um mjög áhugavert mál. Ég er ekki einn af flutningsmönnum þess en hygg, án þess að ég hafi kafað í málið, að ég sé hjartanlega sammála því og flutningsmönnum þess. En ég fór að velta fyrir mér einu þegar ég var að hlusta á framsöguna og ákvað að nýta tækifærið og eiga orðastað um málið og alla anga þess við hv. þingmann og vona að hann virði það við mig.

Hér er lagt fram mál og hv. þingmaður fór vel yfir það. Mig langaði að spyrja hann út í stöðu sem upp kom í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Við mörg í þessum sal og mörg á þessu frumvarpi vísum gjarnan til skyldu stjórnvalda að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslna. Í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu var spurt: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi? Það var samþykkt með — ja, ég man ekki niðurstöðuna en töluverðum meiri hluta. Hv. þingmaður kom ekki inn á það í framsögu sinni svo að ég tæki eftir. Mig langar að spyrja hver sé afstaða hans til þess. Ég spyr um svörin við þeirri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hvort við getum komið með mál sem gengur gegn niðurstöðu hennar og það nær kannski yfir aðrar spurningar í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu líka.