150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega.

35. mál
[16:19]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ólafur Þór Gunnarsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.

Tillagan sjálf er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela félags- og barnamálaráðherra að gera úttekt á kostnaði við að koma upp orlofshúsum fyrir örorkulífeyrisþega á völdum stöðum á Íslandi. Horfa skal sérstaklega til orlofshúsa verkalýðshreyfingarinnar sem fyrirmyndar. Úttektin skal unnin í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins. Lagt verði mat á þörf, umfang, kostnað og mögulegar fjármögnunarleiðir. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður úttektarinnar eigi síðar en 1. maí 2020.“

Þannig hljómar ályktunartextinn sjálfur. Í greinargerð með tillögunni er í örstuttu máli farið yfir hina stóru drætti, ef svo má segja, í þeirri sögu sem leiddi til þess að verkalýðshreyfingin kom á laggirnar orlofshúsum. Til þess að fá aðgang að því kerfi þarf fólk að vera þátttakendur á vinnumarkaði en það er mikilvægt fyrir öryrkja jafnt sem þá sem eru virkir á vinnumarkaði að eiga kost á því að komast í frí fjarri heimili sínu og geta notið útivistar, afslöppunar, heitra potta og alls þess sem við þekkjum úr sumarbústaðakerfinu sem hefur verið byggt upp víða um land og fólk hefur aðgang að í gegnum stéttarfélög. En það er ekki bara aðildarleysi að stéttarfélagi sem hefur áhrif á það að örorkulífeyrisþegar sem og fatlað fólk getur ekki alltaf nýtt sér þessi sumarhús, hönnun og aðgengi þarf vitaskuld líka að vera með þeim hætti að fólk sem býr við einhvers konar hreyfihömlun geti nýtt sér húsnæðið. Það er eitt af því sem hæstv. ráðherra þarf að hafa í huga og hafa undir við úttekt á kostnaði við það að koma upp orlofshúsum í takti við þessa tillögu. Þá er það jafnframt svo að örorkulífeyrisþegar eru margir hverjir, raunar flestir, í tekjulægri hópum samfélagsins og eiga því erfiðara en margir aðrir með að leigja sér orlofshús á frjálsum markaði. Þau hús eru vissulega til hér á Íslandi og fjölgun ferðamanna síðustu ár hefur haft þau áhrif að leiga á slíkum húsum hefur farið hækkandi.

Að mínu mati er hér um litla og hógværa tillögu til þingsályktunar að ræða sem getur hins vegar, verði ráðist í þessa vinnu og í kjölfarið farið í að koma upp orlofshúsnæði fyrir öryrkja, skipt sköpum um lífsgæði örorkulífeyrisþega og fjölskyldna þeirra því að það myndi auka möguleika þeirra á því að geta breytt til og farið í frí með fjölskyldu og/eða vinum fjarri heimilinu. Ég held að við séum öll sammála um að það að komast í sumarbústað sé partur af lífsgæðum okkar. Þess vegna eigum við auðvitað að hafa það þannig að öllum standi það til boða, ekki einungis þeim sem eru aðilar að stéttarfélögum. Og þó svo að þetta mál breyti ekki stöðu örorkulífeyrisþega að öðru leyti í samfélaginu er það eitt af því sem skiptir svo miklu máli til að bæta lífsgæðin. Við þurfum líka að hafa í huga að samhliða því að bæta kjör fólks, skapa aðstæður til þess að öryrkjar og fatlaðir geti verið virkir á öllum sviðum samfélagsins, þarf fólk jafnframt að hafa tækifæri til þess að njóta þess að geta farið í frí og gert sér dagamun.

Ég vonast til þess að þessi tillaga fái jákvæðan hljómgrunn hér á Alþingi. Það er ýmislegt sem er bara hreinlega ekki vitað, t.d. hvað það gæti kostað að koma slíkum orlofshúsum upp. Þó svo að ég viti að þörf sé fyrir orlofshúsnæði veit ég ekki hversu mörg hús er þörf fyrir. Það er ástæðan fyrir því að málið er sett fram í formi þingsályktunartillögu. Ég held að það sé mikilvægt að byrja á þeim grunni að fela hæstv. félags- og barnamálaráðherra að fara í ákveðna greiningarvinnu. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta hér. Ég vonast til að málið fái góðar undirtektir á Alþingi og legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til síðari umræðu og hv. velferðarnefndar.