150. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2019.

orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega.

35. mál
[16:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu um orlofshús fyrir örorkulífeyrisþega. Þegar ég varð öryrki og datt út úr kerfi VR, með orlofshúsum og öllu, fannst mér mjög sárt að geta ekki lengur farið í orlofshús, fannst það mjög ósanngjarnt. En sem betur fer voru framsæknir menn í VR á þeim tíma og með því að borga 1% af tekjum mínum úr lífeyrissjóði inn í VR fékk ég aðgang að orlofshúsum áfram. Það var alveg stórkostlegt og ég nýtti mér það vel og vendilega. En því miður eru ekki allir svo heppnir, þeir einstaklingar sem eru ekki tengdir verkalýðshreyfingu á nokkurn hátt komast ekki í orlofshús. En ég vil benda á að stórhuga félög úti í bæ hafa sýnt þessum málum gífurlegan áhuga og eitt af þeim er Sjálfsbjörg. Þau eiga stórglæsilegt hús í Reykholti í Biskupstungum, sem er nýfarið að leigja út. Þar er fullkomin aðstaða fyrir hreyfihamlaða, hægt að fara í heitan pott, á allan hátt til fyrirmyndar. En þetta var dýr framkvæmd og því miður, og það sýnir sig hversu dýr svona framkvæmd getur verið, varð að leigja húsið á almennum markaði til þess að ná upp í kostnað.

Það er ekki fyrir þá sem eru verst staddir að leigja þannig hús og maður leiðir hugann að því. Til þess að félagar í Sjálfsbjörg geti leigt húsið væri mjög æskilegt að til væri styrkþegakerfi, að allir gætu sótt um styrk til að fara í orlofshús. Það er yfirleitt ekki til fyrir örorkulífeyrisþega og það er synd og skömm. Ef einhverjir hafa sérstaklega gott af því að brjóta upp tilveruna eru það örorkulífeyrisþegar, að geta komist úti í náttúruna, komist í sumarhús og lifað eðlilegu lífi eins og allir aðrir. En eins og staðan er í dag er það því miður ekki og ekkert útlit fyrir að það verði nema með aðkomu ríkisins. Og þetta er ekki, held ég, það stór pakki fyrir ríkið. Við ættum alveg að geta séð til þess að þessir einstaklingar hafi möguleika á að nýta sér það. Það gefur líka augaleið að þó að verkalýðshreyfingin geti veitt mörgum aðgang að bústöðum sínum þá eru þeir ekki allir með aðgang fyrir hreyfihamlaða þannig að þar er misbrestur á. Þar af leiðandi geta ekki allir nýtt sér það þótt þeir eigi réttinn. Þarna erum við að tala um að það vanti stórlega hús sem eru aðgengileg á allan hátt fyrir þá sem eru hreyfihamlaðir þannig að þeir geti nýtt þau. Helst ættu þeir að geta nýtt sér slík hús sér að kostnaðarlausu vegna þess að allur kostnaður í þá veru er íþyngjandi. Kostnaður þyrfti að vera eins lítill og hægt væri. Við gætum haft styrkjakerfið þannig að fólk gæti sótt um styrki til að nýta sér slíkt hús einu sinni á ári. Það væri mjög gott.