150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

nýsköpunarstefna ríkisstjórnarinnar.

[13:41]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Nú hefur hæstv. ráðherra kynnt nýsköpunarstefnu sína þar sem lýst er verðugum og mikilvægum markmiðum og áherslum til ársins 2030. Í stefnunni er mikið rætt um mikilvægi þess að fjárfesta í nýsköpun og að veita fé til frumkvöðla. Þessi stefna er ágæt út af fyrir sig og ég hrósa hæstv. ráðherra fyrir hana. Því ber að fagna að fyrir liggi stefna næsta áratuginn um hvert landið stefni í nýsköpun, það er gríðarlega mikilvægt. En hún virðist vera í nokkurri mótstöðu við núverandi stefnu stjórnvalda og má því velta upp hversu mikil alvara sé á bak við hana þar sem afar lítið er fjallað um beinan stuðning ríkisins við nýsköpun og frumkvöðla og ekkert liggur fyrir um fjárveitingar og styrki.

Einn helsti styrktaraðili sprotafyrirtækja á fyrstu stigum er Tækniþróunarsjóður en fjárveitingar í hann hafa farið lækkandi frá árinu 2017. Nú ber svo við að samkvæmt fjárlögum næsta árs er aðhaldskrafa á málaflokknum. Samt er það svo að miðað við núverandi fjármagn getur sjóðurinn aðeins veitt fjármagn til um tíunda hvers verkefnis sem sækir um styrk en árið 2004, þegar sjóðurinn hóf störf, fékk um eitt af hverjum þremur verkefnum slíkan styrk. Tækni- og hugbúnaðarfyrirtæki eru ein besta samfélagslega fjárfesting sem við getum farið í. Þau nota engar auðlindir og menga ekki en skapa vörur sem geta skilað margföldum tekjum miðað við fjárfestingu og í mörgum tilfellum gjaldeyristekjum sem eru þeim mun verðmætari fyrir þjóðarbúið.

Forseti. Nýlega varpaði Viðskiptaráð Íslands ljósi á úttekt IMD viðskiptaháskólans á stafrænni samkeppnishæfni ríkja þar sem Ísland féll um sex sæti, úr því 21. í það 27. Helsta ástæðan er sú að framtíðarviðbúnaður Íslands er nú metinn mun lakari en áður. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir okkur. Það dugar ekki bara að búa til skattalega hvata. Við verðum líka að styrkja frumkvöðla og nýsköpun með beinum aðgerðum. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar ráðherra að tryggja að hér blómstri ríkt nýsköpunarumhverfi?