150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

ákvarðanir Sjúkratrygginga um kaup á hjálpartækjum.

[13:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hv. hæstv. heilbrigðisráðherra stórfurðulegrar spurningar í sjálfu sér vegna þess að á sama tíma og félagsmálaráðherra undirbýr frumvarp um starfsgetumat gagnvart öryrkjum er heilbrigðisráðherra hinum megin að skapa stórhættu fyrir einstaklinga sem þurfa á þvaglegg að halda, fólki sem berst við fötlun og er að berjast við að halda heilsu til að stunda vinnu. Þá koma Sjúkratryggingar Íslands og setja fólki stólinn fyrir dyrnar og segja: Við erum sérfræðingar. Við þekkjum hvaða þvaglegg viðkomandi á að nota. Þið sem eigið að nota hann hafið ekki hundsvit á því og þar af leiðandi verðið þið bara að nota þennan þó að hann valdi ykkur stórkostlegum skaða, sýkingum og hættu á að lenda inni á sjúkrahúsi.

Hvar er heilbrigð skynsemi í þessu? Af hverju er ekki talað við þetta fólk og því leyft að velja sína hluti sjálft? Þetta eru einstaklingar sem eru í vinnu. Þeir eru að vinna í dag og reyna að stunda sína vinnu, en þeir lenda í vandræðum með að komast í vinnu og ferðast. Við erum að tala um innan við milljón króna kostnað, 1 milljón, innan við það. Á sama tíma erum við að setja hálfan milljarð í fjölmiðlanefnd. Við erum að setja 200 milljónir í RÚV sem er þegar með 700 milljónir, en við erum að spara hjá þessum einstaklingum um 1 milljón. Hvernig dettur ykkur þetta í hug?