150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

ákvarðanir Sjúkratrygginga um kaup á hjálpartækjum.

[13:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur: Eru Sjúkratryggingar Íslands ekki undir hennar stjórn? Eru þær þá ekki líka undir hennar stjórn í sambandi við t.d. greiðsluþátttöku barna með skarð í vör sem fara til tannlækna en fá ekkert núna og er líka neitað? Eru þá Sjúkratryggingar Íslands eitthvert ríki í ríkinu sem geta bara gert það sem þeim sýnist? Þær hljóta að vera að fara eftir lögum frá okkur og þá hljóta lögin frá okkur að vera svo rosalega vitlaus að það þarf hreinlega að taka þau algjörlega til endurskoðunar. Við getum ekki að hagað okkur svona gagnvart þessu fólki. Við erum að tala um börn með skarð í vör, við erum að tala um fatlaða einstaklinga í hjólastólum. Hvernig í ósköpunum ætlum við að kenna Sjúkratryggingum Íslands um þetta? Annaðhvort er það heilbrigðisráðherra sem ber ábyrgð á Sjúkratryggingum Íslands eða við hér inni sem berum ábyrgð á því og eigum að sjá til þess að þetta fólk fái þjónustu sem á að vera sjálfsögð.