150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

jöfnun raforkukostnaðar.

[14:09]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil beina kastljósinu að jöfnun á raforkukostnaði. Orkuauðlindir landsins eru í eigu landeigenda, ríkið er stærsti eigandinn og þar á eftir koma sveitarfélög og aðrir landeigendur. Flutningskerfi raforku er í sameign þjóðarinnar en landsmenn sitja ekki við sama borð þegar kemur að flutningi á raforku til síns heima. Það fer nefnilega eftir því hvar þeir búa. Í landinu eru tvær gjaldskrár á flutningi rafmagns, þ.e. dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Dreifikostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og ljóst er að stöðugt dregur í sundur og núverandi jöfnunargjald er langt frá því að jafna þennan mun. Nú er svo komið að kostnaðurinn er u.þ.b. fjórðungi meiri í dreifbýli þrátt fyrir jöfnunargjaldið og skýringin á sífellt hækkandi kostnaðardreifingu raforku er að kaupendum raforku fækkar í dreifbýli og fjárfestingarþörf og endurnýjaðar þarfir eru meiri í dreifbýli en þéttbýli sem og átaksverkefni eins og þrífösun rafmagns. Alltaf eru færri og færri sem borga brúsann. Þetta leiðir af sér aukinn mun á meðalverði í þéttbýli og dreifbýli. En hvar eru innviðir raforkunnar og mannvirkin, er það ekki í dreifbýlinu?

Í núgildandi byggðaáætlun falla verkefnin undir þrjú yfirmarkmið: Að jafna aðgengi að þjónustu, jafna tækifæri til atvinnu og stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land. Undir hvert markmið fellur fjöldi verkefna, þar á meðal verkefni sem stuðla að aukinni jöfnun orkukostnaðar í dreifbýli og þéttbýli. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvar stendur vinna við jöfnun orkukostnaðar samkvæmt stefnumótandi byggðaáætlun og hvaða leið telur hæstv. ráðherra besta til þess færa að jafna orkukostnað að fullu?