150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þessa umræðu og einnig hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í henni. Hér er rætt um 39 þrep um hagsæld og lífsgæði. Þegar ég sá fyrst orðið velsældarhagkerfi hugsaði ég með mér: Af hverju erum við komin þangað? Eigum við ekki að byrja á að útrýma vesældinni áður en við förum að tala um velsæld? Eigum við ekki að setja okkur markmið í 39 þrepum um að eyða henni? Við gætum t.d. byrjað að spyrja okkur hvers vegna 50% af launamönnum eru með 420.000 kr. eða minna í tekjur. Af hverju eru til öryrkjar sem eiga ekki fyrir mat? Af hverju eru til eldri borgarar sem eiga kannski eina maltdós eða minna í ísskápnum? Hvers vegna í ósköpunum býr fullt af börnum við fátækt? Ég get ekki skilið að við séum enn einu sinni komin með einhver rosalega falleg og flott markmið og ætlum að vera í samstarfi við Skota og Nýsjálendinga og fleiri þjóðir um þau markmið en á sama tíma tökumst við ekki á við þau markmið sem blasa við okkur, markmið sem við eigum að horfa á, eins og við vorum að tala um í óundirbúnum fyrirspurnum áðan, þar sem markmiðið hefur verið að skaða fólk. Við erum að spara aurinn og henda krónunni. Við getum lagt okkur fram við að skaða fólk fyrir innan við 1 millj. kr. á sama tíma og við komum hingað upp og tölum um velferðarhagkerfi í 39 þrepum.

Við erum að byrja á öfugum enda enn einu sinni. Byrjum á hinum endanum, setjum upp 39 þrep um það hvernig við ætlum að útrýma vesæld á Íslandi og ég skal taka þátt í þeim.