150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með nokkrum þingmönnum hér, við getum ekki skreytt okkur of mikið með meðaltölum. Við þurfum að skoða dreifinguna í öllum þeim tölum og mælikvörðum sem við setjum fram. Það skiptir nefnilega máli að það séu ekki einhverjir útlagar sem eru með miklu hærri tekjur sem draga upp meðaltalið og birta okkur mjög ógagnsæja mynd af því hvernig umhorfs er hérna. Það að skipta velsældarhagkerfinu upp í þessa fjölbreyttu mælikvarða en ekki bara þessa einu köku sem er ekki til, sem er bara lygi, kemst miklu nær því að við vitum og getum skoðað nánar hvað það er sem helst ætti að vekja athygli á og gengur illa.

Það sést t.d. í þeim gögnum sem komu út í skýrslunni að jafnvægi á milli starfs og einkalífs, vinnutími, er gríðarlega slæmt hér á Íslandi. Það hefur oft komið fram í umræðum hér á þingi og er kjarninn í máli Pírata um styttingu vinnuvikunnar. Þar kemur líka fram munurinn á hlutfalli þeirra karla annars vegar sem vinna langa vinnuviku og kvenna hins vegar. Það segir í raun líka mikið um þann ólaunaða vinnutíma sem konur leggja af mörkum, þá inni á heimilum eða annars staðar, sem er þekktur þar líka. Í þeim mælingum sem við fáum frá OECD kemur í ljós að konur hafa minni frítíma en karlmenn þrátt fyrir að vinna miklu styttri vinnudag. Það er af því að þær eru að sinna ólaunuðum störfum.

Gögn af þessu tagi hjálpa okkur mjög mikið til þess að velja réttu aðgerðirnar og þetta er lykilatriði sem passar fullkomlega inn í lög um opinber fjármál og markmiðadrifna og mælanlega stefnumótun stjórnvalda, til að vera nákvæmari svo að sá takmarkaði peningur sem við höfum skili sér á rétta staði en fari ekki bara í að auka hagvöxt eftir ágiskun.