150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

velsældarhagkerfið.

[14:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Þessi umræða og þessi skýrsla eru hluti af breytingum sem eru að eiga sér stað um allan heim til bóta. Það er ekki alltaf sem maður stendur í þessum sal og getur sagt það. Allt of lengi einblíndi fólk í okkar stöðu, stjórnmálafólk, á allt of einfalda mælikvarða til að ná utan um gæði samfélags. Sá mælikvarði var landsframleiðslan eða hagvöxturinn en landsframleiðsla snýst ekki um gæði samfélags heldur magn. Hún er í sinni allra einföldustu mynd mælikvarði á neyslu. Af þeirri neyslu leiðir mengun og ásælni í auðlindir og þessi hagvaxtarhyggja birtist okkur í sinni öfgakenndustu mynd sem hamfarahlýnun.

En nú horfir vonandi fram á betri tíð þegar fjöldi ríkja og jafnvel íhaldssömustu alþjóðastofnanir eru að taka upp á sína arma þessa fjölbreyttu mælikvarða við stefnumörkun. Við erum hér með 39 mælikvarða sem spanna vítt svið íslensks samfélags en það er áberandi hvað er hægt að tengja margt af því þeirri stöðu fólks að eiga erfitt með að ná endum saman, sem mætti alveg kalla skuggahlið neyslusamfélagsins. Ég nefni t.d. það að vinna langa vinnuviku, óhefðbundinn vinnutíma, að neita sér um læknisþjónustu. Þetta er allt saman tekið til hér af því að í góðu samfélagi eru þau atriði líka í lagi.

Það var áberandi á hvaða sviðum skorti upplýsingar. Það skorti upplýsingar um umhverfi og sem snúa að félagsauði samfélagsins. Stundum birtist nefnilega gildismat samfélags í því hvað það kýs að vakta og mæla. (Forseti hringir.) Það segir þess vegna sína sögu um hvað vantar helst upp á. Það vantaði þessa mælikvarða um raunverulega hagsæld og lífsgæði hér á landi en nú hefur verið bent á það og það stendur vonandi til bóta.