150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

jarðamál og eignarhald þeirra.

[15:19]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að tilefni þessarar umræðu sé öllum ljóst, samþjöppun á eignarhaldi á jörðum á Íslandi. Ég var að glugga í Öldina okkar í gærkvöldi og lesa um 15. öldina. Þá átti Loftur ríki Guttormsson rúmlega 100 eignir og það þótti ekkert tiltökumál.

Ég er alveg sammála því að það þarf að hafa reglur sem takmarka samþjöppun á jörðum. Við höfum ýmis ráð til þess. Það var hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra áðan að hvorki stjórnarskráin né EES-samningurinn takmarkar það. Við þurfum hins vegar að greina vandann. Við þurfum að vita hver vandinn er ef hann er fyrir hendi. Er orðin óeðlileg samþjöppun? Við þurfum að passa líka, hæstv. forsætisráðherra, að það sé eðlilegt verð á þessum jörðum. Það er að mörgu að gæta.

Ég bind miklar vonir við undirbúningsvinnu um að setja einhverjar reglur. Þetta skiptir máli og fer vítt og breitt um sviðið, skipulagslög, jarða- og ábúðarlög, umhverfislög o.s.frv. Þetta er ekki einfalt verk en ég tel mikilvægt að farið sé í það þannig að við búum til eitthvert umhverfi þar sem jafnræðis er gætt og allir standa jafnt að vígi en tryggjum samt eðlilegt umhverfi við sölu á eignum eða jörðum á markaði. (Forseti hringir.) Ég treysti því, hæstv. forsætisráðherra, að það komi gott frumvarp út úr þessu.