150. löggjafarþing — 12. fundur,  8. okt. 2019.

jarðamál og eignarhald þeirra.

[15:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það er kaldhæðni örlaganna að á sama tíma og við höfum verið að fagna 100 ára afmæli fullveldis skulum við horfa á eftir landinu okkar í hendur útlendinga sem ekki vilja byggja það. Stjórnvöld hafa staðið álengdar og horft aðgerðalaus á. Í fjölmörgum ríkjum eru settar takmarkanir á jarðakaup erlendra aðila hvað stærð lands og fjölda jarða varðar. Sjálfsagt og eðlilegt er að setja takmarkanir hér á landi með sama hætti. Það má t.d. nefna að í Austurríki, sem er í Evrópusambandinu, er sérstakur kvóti á landakaupum. Þar er ekki hægt að safna að sér fjölmörgum jörðum og er ágætt að minna á að á Íslandi á einn auðmaður yfir 40 jarðir. Þetta er þróun sem er grátlegt að horfa upp á, herra forseti, og því miður hefði verið hægt að grípa inn í þetta mál miklu fyrr. Árið 2013 skipaði þáverandi ríkisstjórn nefnd til að endurskoða lögin um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Þetta er vönduð skýrsla og í henni eru tillögur um hvernig hægt sé að bregðast við ástandinu. Liðin eru fimm ár síðan skýrslan var birt og ekkert hefur gerst í málinu. Í henni eru mjög góðar tillögur, t.d. er eitt einfalt atriði sem hefði verið hægt að gera sem stenst fullkomlega EES-samninginn, að setja búsetukröfuákvæði inn í lögin. Það er ekki flókið að gera kröfu um að þeir sem kaupa jarðir búi þar. Það var hins vegar ekki gert. Það þarf ekki heila nefnd, það þarf ekki viðamikla þingsályktunartillögu til að taka á því máli. Nei, herra forseti, það er einfalt að gera þetta og þar hafa stjórnvöld því miður sofið algjörlega á verðinum. (Forseti hringir.) Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra með að þetta er stórmál sem verður að taka á og ég vona svo sannarlega að nú takist það með því boðaða frumvarpi sem hæstv. forsætisráðherra hefur nefnt hér. Því miður er ég ekki vongóður í ljósi reynslunnar.