150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Ég verð að vera snögg í seinni umferð. Má þá skilja það sem svo að það sé vilji ríkisstjórnarinnar að greiða afkomendum og aðstandendum sérstakar bætur umfram það sem dómfelldu fengu, þ.e. sérstakrar bætur vegna þess að þeir eru líka þolendur þess ástands sem uppi var, börn dómfelldu sem fengu að dúsa heima og þess háttar? Ég get ekki séð þess stað í frumvarpinu að verið sé að tala um sérstakar bætur fyrir afkomendur og alla fjölskylduna. Ég hefði haldið að þetta væri eingöngu til komið vegna stöðu þeirra sem dæmdir voru. Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra út í stöðu Erlu Bolladóttur. Ekkert er minnst á hana í þessu en hún var neydd til að greina frá því sem hún gerði. Það er enginn vafi á því, hún var með kornabarn heima hjá sér og mátti óttast að verða aftur hneppt í varðhald ef hún greindi ekki frá því sem hún gerði. Ég spyr hvort aldrei hafi komið til álita að láta þetta líka gilda um hana.

Að lokum vil ég spyrja hvort það komi til greina, að mati hæstv. forsætisráðherra, að afturkalla sýknukröfu sem lögð var fram (Forseti hringir.) fyrir hönd forsætisráðherra í greinargerð ríkislögmanns sem og þær málsástæður sem liggja að baki sýknukröfu.