150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ráðherra er heimilt að greiða bætur og í kaflanum Mat á áhrifum er talað um 700–800 millj. kr., en að sú upphæð kunni að taka breytingum. Svo er kafli sem heitir Samræmi við stjórnarskrá en í 41. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Ég velti því fyrir mér hvort við séum að tala um fjárlög eða fjáraukalög í sambandi við þetta frumvarp. Ég velti því líka fyrir mér af hverju ekki er talað um fasta upphæð, við erum væntanlega ekki að fara að skrifa upp á óútfylltan tékka. Spurning mín er í raun einföld, út frá mínum sjónarhóli sem fjárlaganefndarmanns: Eru þetta fjárlög eða fjáraukalög? Og hvar er upphæðin sem á að passa við umrædda grein stjórnarskrárinnar?