150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt seinni parturinn af fyrirspurn minni. Það er þannig að bætur eru greiddar út af fjárlagaliðum sem fara þá í plús og mínus eftir því hvernig lög um opinber fjármál virka. Ef til koma háar bætur, eins og gerst hefur að undanförnu, fer sá fjárlagaliður bara í mínus eða greitt er úr varasjóði og þarf ekkert sérstakt frumvarp til þess. Í fyrra nam slík upphæð 5 milljörðum, en dómur um skerðingu lífeyris var að falla. Það er miklu hærri upphæð en hér er um að ræða og ekki var lagt fram sérfrumvarp til að heimild fengist til að greiða það. Ég skil ekki alveg af hverju við erum að tala um þetta frumvarp þegar allt kemur til alls. Gildandi lög ná alveg utan um þetta og ef það snýst um að ná fram réttindum afkomenda þá veita ákveðin sértæk lög aukin réttindi aftur í tímann, sem má alveg gera.