150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að hluta til á sama stað og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir. Ég velti fyrir mér tilganginum með þessu frumvarpi. Í 3. tölulið greinargerðar þess, sem nefnist Tilefni og nauðsyn lagasetningar, segir:

„Frumvarpið er lagt fram nú til að taka af öll tvímæli um vilja stjórnvalda og Alþingis til að greiða hinum sýknuðu og aðstandendum þeirra sanngjarnar bætur.“

Hæstv. forsætisráðherra svaraði áðan og benti á að þetta frumvarp væri hugsanlega nauðsynlegt til að aðstandendur gætu fengið bætur. Núgildandi lagaumgjörð er þá líklega ekki nægilega góð til að tryggja aðstandendum bætur. Ég get skilið þau sjónarmið í frumvarpinu ef það væri þannig. Að vísu hefur lögmaður, a.m.k. einn lögmaður, ef ekki fleiri, þessara sakborninga eða sýknuðu manna sagt að það þurfi ekkert. Núgildandi skaðabótalög myndu alveg ná til aðstandenda. Gott og vel.

En þá er spurningin: Ef við erum að koma fram með sérstakt frumvarp núna til að tryggja að aðstandendur fái bætur velti ég fyrir mér fordæminu í því. Ef aðrir eru sviptir frelsi sínu með óréttmætum hætti, þýðir það þá að við leggjum fram frumvarp í hvert sinn um það til að tryggja aðstandendum þeirra líka bætur?

Ég held að vísu að við séum komin langt fram úr okkur. Ég ætla að halda langa ræðu um allt þetta mál á eftir, ég næ því ekki hér. En ég spyr: Er ekki langeðlilegast að treysta dómstólum fyrir að ljúka þessu máli, hversu sérstakt sem það er?