150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:27]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði verið ein leið, þegar dómur Hæstaréttar féll, að stjórnvöld hefðu einfaldlega sagt fólki að fara fyrir dóm og sækja rétt sinn. (BN: … gert áður.) Það var ekki niðurstaða ríkisstjórnarinnar og ekki sáttanefndar sem skoðaði líka ýmis önnur mál í vinnu sinni og reyndi að vinna vel og heiðarlega að þessu máli meðan hún sat að borðum. Henni fannst mikilvægt að hinum látnu væri líka sýnd ákveðin virðing með því einmitt að jafnsetja þessi mál, lifenda og látinna, og tryggja þannig aðstandendum bætur.

Um fordæmi, ég vona að þetta mál endurtaki sig aldrei. Ég vona að við séum á þeim stað og á þann stað komin á Íslandi að við munum ekki endurtaka slíkt mál. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af einhverju fordæmi sem hér verði gefið. Ég ætla að treysta því að réttarríkið á Íslandi standi styrkari fótum nú en þegar þetta mál kom upp og við séum ekki að fara að skapa vandamál í réttarríkinu núna, stjórnvöldum framtíðar, að bæta fólki þann skaða að vera svipt frelsi, ekki bara dögum saman heldur árum saman. Það er ekkert smámál að taka af fólki heilu árin í lífi þess.

En þetta var sú ráðgjöf og það mat sem mitt fólk lagði á það mál, að mjög mikilvægt væri að Alþingi jafnsetti með þessum hætti stöðu látinna og lifenda í málinu sem væri fordæmalaust og skipti máli að bæta úr með þessum hætti. Þetta sýnir líka þann eindregna vilja stjórnvalda að viðurkenna bótaskyldu sína vegna þess ranglætis sem hér var framið fyrir áratugum.