150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[18:31]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Þetta er áhugavert frumvarp sem við höfum fengið í hendur, frumvarp til laga um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar. Heitið á frumvarpinu vekur athygli mína eitt og sér. Þegar maður horfir á þær þrjár greinar sem þar eru vekur hver einasta grein í frumvarpinu sérstaka athygli mína. Í fyrsta lagi er verið að veita ráðherra heimild til að greiða bætur í kjölfar dóms Hæstaréttar.

Við erum með ríkislögmann og hann fer með uppgjör bótakrafna sem eru bornar fram á hendur ríkinu og gerir það samkvæmt lögum um ríkislögmann. Með frumvarpinu virðist ætlunin vera að aftengja ríkislögmann með öllu og að ráðherra ætli sjálf — ég geri ráð fyrir að sá umræddi ráðherra sé hæstv. forsætisráðherra — að greiða bætur í þessu máli en ekki fela það ríkislögmanni eins og í öllum öðrum málum er varða bótakröfur á hendur ríkinu. Fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra áðan að tilgangur lagasetningarinnar væri að tryggja bætur til aðstandenda. Í 2. mgr. 1. gr. er talað um að bætur skuli greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka. Þá kemur fram í frumvarpinu að ekki er einungis verið að taka þá sem eru aðstandendur, ekki er eingöngu verið að búa til ramma utan um þá, heldur líka þá sem sýknaðir voru. Nú þegar er lagaheimild fyrir því og vil ég því segja að þetta sé í raun óþarfi.

Ég kom inn á það í andsvari áðan hvort um væri að ræða sjálfstæðan bótarétt til handa aðstandendum vegna eigin miska af gjörðum ríkisvaldsins, hvort ríkisstjórnin ætli með þessu að skapa hvort tveggja bætur sem aðstandendur erfa vegna þeirra sem voru ólöglega frelsissviptir, ef svo má segja, eða hafa a.m.k. verið sýknaðir, sem og bætur vegna þess miska sem fjölskyldan mátti þola á meðan einstaklingarnir voru frelsissviptir.

Maður veltir fyrir sér hvernig ríkisstjórnin hefur hugsað þetta. Ríkisstjórnin hefur áður borið fyrir sig lögfræðilegri ráðgjöf sem ekki hefur reynst henni sérstaklega vel. Vil ég þar minna á Landsréttarmálið. Þá kom hver ráðherrann á fætur öðrum fram og reyndist furðu lostinn yfir niðurstöðunni í þeim málum öllum, á hverju einasta dómstigi, hvort sem um var að ræða héraðsdóm, Hæstarétt eða Mannréttindadómstól Evrópu, og virtust þá hafa talað við ýmsa fræðimenn sem þó voru eiginlega allir ósammála þeim fræðimönnum sem sú sem hér stendur ræddi við; en minni hlutinn var á því að málið færi nákvæmlega eins og það fór. Maður veltir aðeins fyrir sér þeim lögfræðilegu ráðgjöfum sem ríkisstjórnin er sífellt að leita til.

Svo er það þetta með fordæmið sem hv. þm. Brynjar Níelsson benti á. Við skulum vona að viðlíka mál, viðlíka hryllingur, og við horfum á með Guðmundar- og Geirfinnsmálið, þar sem fólk var svipt frelsi dögum, vikum og árum saman að ósekju, komi ekki upp aftur. En ekki er langt síðan að sóttar voru bætur á hendur ríkinu vegna frelsissviptingar sem ekki þótti tæk eftir á. Og hvað með aðstandendur þeirra sem hafa fengið slíkar bætur? Hvar er fordæmið? Geta þeir farið í dómsmál og sótt bætur sér til handa eða snýst þetta bara um bætur sem einhver erfir vegna þess að sá sem ætti rétt á bótunum er látinn? Þetta finnst mér ekki vera skýrt í frumvarpinu og við verðum að vanda lagasetninguna.

Þá vekur 3. gr. frumvarpsins óneitanlega athygli mína. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lög þessi öðlast þegar gildi en heimild ráðherra skv. 1. gr.“ — til greiðslu bótanna — „fellur úr gildi 30. júní 2020.“

Hvað gerist þá? Við skulum átta okkur á því að í þessu frumvarpi er sagt að þetta komi ekki í veg fyrir að fólk leiti réttar síns fyrir dómi. Ég get alveg lofað hæstv. forsætisráðherra því að ef einhver ætlar að höfða mál í dag þá verður það langt í frá búið 30. júní 2020. Til hvers erum við þá að veita hæstv. forsætisráðherra þessa heimild? Ég átta mig ekki á því.

Ég átta mig í fyrsta lagi ekki á því til hvers þetta frumvarp er komið fram; við erum með þessa heimild í lögunum. Í öðru lagi átta ég mig ekki á hvers vegna hæstv. forsætisráðherra ákveður að stíga fram fyrir ríkislögmann í staðinn fyrir að láta ríkislögmann um vinnuna, nema að þetta feli í sér algjört vantraust á ríkislögmann, sem hlýtur þó að skirrast við þegar hann sér þetta. Í þriðja lagi finnst mér undarlegt að ætla sér þennan ofboðslega knappa tíma því að málið fer væntanlega í meðferð hér í þinginu og klárast líklega rétt fyrir jól. Og hvað? Þá hefur hæstv. forsætisráðherra sex mánuði til að ljúka öllum dómsmálum ef fólk kýs að fara fyrir dóm. Það er miklu styttri tími en nú er liðinn frá því að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í fyrra og við erum ekkert farin að þokast áfram.

Ég sé ekki af hverju það kemur málinu við að Alþingi hafi á fyrri stigum komið að því. Það er út af öðrum málum. Greiðsla bóta er bara allt annað mál. Ef hæstv. forsætisráðherra er að ætlast til þess að þingmenn fari hér að gambla með peninga, metast um hver býður hæstu bæturnar, þá er ég að hugsa um að fá að sitja hjá í þeirri umferð. Mig langar ekki til að taka þátt í slíkri pólitískri veislu í boði hæstv. forsætisráðherra. Það er bara ósmekklegt í þessu dæmi, við förum ekki á það plan. Þetta er þess háttar mál að það á ekki að vera bundið flokkspólitík, þetta er miklu stærra mál en það. Ef við förum á einhvern hátt að bjóða í — ég tek ekki þátt í því.

Að lokum vil ég víkja sögunni að Erlu Bolladóttur. Það var auðvitað ákveðið áfall þegar ekki var fallist á að mál hennar yrði endurupptekið. Við skulum rifja upp sögu Erlu Bolladóttur sem var nýbúin að eignast barn þegar hún var sótt af laganna vörðum og geymd í Síðumúlafangelsi. Við höfum síðan fengið að heyra ýmislegt misjafnt sem þar var gert á hennar hlut. Hún var vissulega orðin frjáls, þ.e. var ekki lengur læst inni í Síðumúlafangelsi, en hún var áfram með sitt litla barn, hvítvoðung, í hvert einasta sinn sem lögreglan mætti heim til hennar til að rekja úr henni garnirnar. Allan tímann, í hvert einasta skipti sem það gerist, hangir yfir henni sú ógn að vera aftur skilin frá hvítvoðungnum. Ég held að það væri gott fyrir okkur öll að átta okkur aðeins á þeirri stöðu. Það er ekki rétt að láta eins og hún hafi verið frjáls kona þegar hún bendir á aðra sem henni var bent á að benda á, að mögulega hafi einhverjir aðrir gert eitthvað, til að skriður komist á málið. Ég vil meina að hún hafi ekki verið með sjálfri sér á þeirri stundu og margir aðrir eru sammála því. Það vita allir sem einhvern tíma hafa prófað að vera með hvítvoðung í fanginu að ef maður á það á hættu að missa barnið frá sér og vera lokaður inni, eins og hún hafði þolað áður, þá er maður varnarlaus. Mér finnst ömurlegt að ekki skuli vikið einu einasta orði að henni í þessu máli. Ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar að koma til móts við hennar kröfur, að eiga samtal við hana, hefði mér þótt vænlegra að hafa orð á því hér eða a.m.k. leggja fram annað þingmál eða víkja orðum að því. Mér finnst þetta nefnilega ekki sérstaklega smekklegt, mér finnst það ekki. Það er verið að hugsa um aðstandendur og börn, foreldra og maka, en ekkert er hugsað um þessa konu sem læst var inni og brotið á. Mér finnst það bara ekki sérstaklega smart, fyrirgefið þið.

Ég held að við verðum hreinlega að gera betur, herra forseti. Ég hef trú á því að hér sé einhver allsherjarmisskilningur í gangi. Bótaskyldan er til staðar, það stendur í lögum um meðferð sakamála, skaðabótalögum, lögum um ríkislögmann. Þetta er allt þarna meira og minna. Ég skil ekki af hverju við erum að þvæla þessu máli hingað inn. Ég átta mig engan veginn á því og greinargerðin með frumvarpinu skýrir það ekki neitt. Hún styður í raun ekki það sem kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra áðan, hún gerir það ekki. Ég held að við verðum að vanda okkur meira.