150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:05]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var áhugaverð ræða hjá hv. þm. Brynjari Níelssyni sem ég verð að játa að ég er að einhverju leyti sammála. Og það er (Gripið fram í: Nei!) eiginlega alveg rosalegt. (Gripið fram í.) En ég er hreint ekki sammála öllu sem hann sagði. Ég er eingöngu sammála því sem lýtur að hinu lagatæknilega atriði varðandi tilgang frumvarpsins og málatilbúnað allan í því. Ég neyddist til þess að koma í ræðustól vegna þess að hv. þingmaður fór að velta fyrir sér hvort þeir sem hér hafa tjáð sig, í þessu sem öðru sem viðkemur þessu máli, hafi kynnt sér málið og gögn þess. Þá rann mér blóðið til skyldunnar að játa að ég hef kynnt mér gögn málsins. Ég hef lesið skýrslur sem teknar voru af meintum sakborningum og endurritaðar og ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að þar hafi verið játning sem náð var fram í einhvers konar frelsi. Þeir einstaklingar voru frelsissviptir. Ég hef líka miklar mætur á réttarsálfræðingnum okkar, hinum mæta Gísla Guðjónssyni, sem hefur tjáð sig mikið um málið. Hann er einhver fremsti sérfræðingur í heimi í fölskum játningum og ég treysti því sem hann hefur sagt. En ég verð að vera sammála hv. þingmanni um að þegar kemur að niðurstöðu Hæstaréttar er hálfsnautlegt hvernig það fór, það var lítill rökstuðningur á bak við þann dóm sem við fengum að sjá í september á síðasta ári (Forseti hringir.) hvað varðar þá sem eru ranglega sakaðir. Ég kem betur inn á það í seinna andsvari.