150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér sýnist stefna í að við hv. þm. Helga Vala Helgadóttir endum í sama flokki. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Við erum að fara að stofna nýjan flokk. Nei, en ég get sagt við hv. þingmann að ég man ekki eftir mörgum játningum í frelsi. Það er mjög sjaldgæft að menn játi sök frjálsir. Ég bendi á að þegar við metum sönnunargildi munnlegs framburðar gerir það enginn betur en þrautþjálfaðir menn sem hlusta á hann, menn og konur svo að ég gleymi því ekki. Þegar við metum sönnunargildi framburðar, hvort sem það er játning eða eitthvað annað, skiptir máli hvort hann styðst við önnur gögn, t.d. vitni. Játning Sævars í Guðmundarmálinu studdist t.d. við vitnisburð vitnisins Erlu Bolladóttur og hann viðurkennir aðild sína að því máli eftir að hafa setið í 11 daga gæsluvarðhaldi. Það er ekkert óeðlilegt við það. En það breytir því ekki að við þurfum alltaf að meta það og enginn er til þess betur fallinn að meta það en dómarar sem hlusta á þann framburð, hlusta á hvað hann sagði. Þegar menn hlusta á afturköllun játningar þurfa þeir líka að meta hversu trúverðug hún er. Þetta þekkja allir sem hafa verið mikið í dómsal og ég held að hv. þm. Helga Vala Helgadóttir þekki það líka, en ég ætla ekki að sakfella einn eða neinn. Ég er bara að segja að ég mótmæli því að um hafi verið að ræða einhverja aðför að þessu leyti til. Ég get vel mótmælt allri einangrunarvist mánuðum saman (Forseti hringir.) og ég get líka rökstutt að það getur oft verið skynsamlegur vafi um sekt fólks.