150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:11]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, þeir fengu bætur sem voru ranglega sakaðir en þeir höfðu ekki alþingismenn til að redda sér í því. Þeir þurftu að fara með mál sitt fyrir dóm og fá dómsúrskurð.

Ég mun ekki styðja rannsókn á rannsókninni vegna þess að rannsókn á rannsókninni hefur farið fram. Ég var meira að segja skipaður verjandi Hauks Guðmundssonar rannsóknarlögreglumanns í því. Lára V. Júlíusdóttir fór fram með þá rannsókn en kannski eru allir búnir að gleyma því. Það er ástæðan fyrir því að ég þekki þetta mál, það er ástæðan fyrir því að ég sá öll gögn málsins. Ég fékk borgað fyrir það [Hlátur í þingsal.] úr ríkissjóði. Vissulega er það til líka að menn hafi játað sök án þess að vera í gæsluvarðhaldi. Menn hafa meira að segja komið niður á lögreglustöð til að játa sök, ég veit það allt saman, en alla jafna í öllum alvarlegum málum játa menn sök frelsissviptir.

Í þessu máli — (HVH: Yfirleitt neita menn bara sök.) Já, þeir byrja á því og ljúga að lögmönnum líka. Nú ruglaði lögmaðurinn mig, nei, hv. þingmaður [Hlátur í þingsal.] og lögmaðurinn. Ég er bara að segja að í sönnunarmati í svona málum vil ég ítreka að þeir sem hlusta á framburð, eins og við sjáum í svo mörgum málum, þar sem niðurstaðan ræðst eingöngu af munnlegum framburði, engum öðrum sönnunargögnum, velta menn fyrir sér trúverðugleika. Er eitthvað í gögnum málsins sem fer gegn þeim framburði? Var eitthvað sem passaði ekki í framburðinn í öðrum gögnum, fjarvistarsönnun, eitthvað annað? Þá get ég skilið að hv. þingmaður segi: Þessi játning er ekki nóg sönnun.