150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta mál er eldra en ég. Ég man ekki hvað ég var gamall þegar ég sá fyrst fréttir þar sem fjallað var um Guðmundar- og Geirfinnsmálið, ég man samt eftir fréttatíma þegar ég var krakki þar sem var fjallað um málið, stórir staflar af skjölum, mjög áhugavert að sjá þetta og aldrei hefði mig grunað að ég ætti að þurfa að fjalla um það mál á þingi, ekki með nokkru móti. Hæstv. forsætisráðherra kom inn á risastórar spurningar varðandi þetta mál, rangláta meðferð opinbers valds. Hvernig á að standa að samfélagslegu uppgjöri þegar illa er farið með opinbert vald? Þetta var nokkurn veginn tilvitnun, ég náði henni ekki alveg nógu hratt á blað enda var ég bara með yfirstrikunarpenna en ekki penna. Nú er ég með penna og get kannski náð því hraðar og betur.

Þegar ég skoða þetta mál á tæknilegum nótum sé ég ekki að það sé nauðsynlegt eða passi í rauninni við þau lög sem við erum nú þegar með, eins og ég kom inn á í andsvari við hæstv. forsætisráðherra áðan. Í lögum um opinber fjármál er gert ráð fyrir því að það sé greitt út og bara mínus og plús eftir hvert ár, að gripið sé til varasjóða ef það munar þeim mun meira og að stjórnarskráin geri ráð fyrir því að Alþingi heimili í fjárlögum eða fjáraukalögum fjárútlát. Ég sé þetta hvorki sem fjárlög né fjáraukalög. Ég sé þetta ekki sem sértæk lög sem veita afturvirka réttarbót aðstandendum þeirra sem eru látnir. Ef það væri vandamálið sæi ég annan texta í frumvarpinu en er hérna. Eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom aðeins inn á áðan á þetta að kinka aðeins kolli til þeirrar ábyrgðar að hafa misbeitt og fyrir rangláta meðferð opinbers valds. Ef ég ætti að nota orð yfir þetta sem er kannski ekki alveg nákvæmt eða sanngjarnt og ekki endilega meint þannig myndi ég nota orðið sýndarmennska yfir frumvarpið. Ég endurtek: Það er ekki endilega nákvæmt orð á þann hátt að það lýsi því hver tilgangur þess er eða hver meiningin er eða markmiðið en það er samt nákvæmt orð á tæknilegan hátt. Ég meina það ekki illa á þann hátt eins og orðið sýndarmennska er kannski oft skilið. Þegar allt kemur til alls í þessu máli, án þess að fara efnislega í atriði þess, endurspeglar það frá öllum sjónarhornum sem ég get litið á málið viðvarandi vandamál í íslenskri stjórnsýslu sem lýtur að ákveðinni samtryggingu. Það eru gerð mistök og þeim er leyft að rúlla áfram endalaust og aftur núna í 45 ár án þess að nokkur beri ábyrgð á þeim mistökum. Það er reynt að skauta fram hjá því að mistökin voru gerð og ekki viðurkennt að það hafi verið gerð mistök. Allt er gert til að koma í veg fyrir að kerfið þurfi að horfast í augu við sjálft sig og viðurkenna eigin mistök. Í staðinn er grafin dýpri og dýpri hola og nú stöndum við frammi fyrir því að holan er svo djúp að enginn veit hvernig á að moka ofan í hana. Enginn hefur hugmynd en þetta er tilraun til þess. Ég virði þá tilraun alveg tvímælalaust en mér finnst hún samt vera ákveðin sýndarmennska. Aftur tek ég fram að ég meina það ekki á slæman hátt. Ég virði þá tilraun tvímælalaust.

Mér finnst mikilvægt í tengslum við þetta mál að fjalla um það kerfislæga vandamál á Íslandi að mistök innan kerfisins eru varin. Segjum sem svo að það komi nýr framkvæmdastjóri eða forstjóri að einhverri stofnun eða opinberu fyrirtæki og svo kemur í ljós þegar hann fær öll gögn máls, hvernig mál hafa verið meðhöndluð innan stofnunar eða fyrirtækis, að eitthvað er mögulegt lögbrot. Höfum við eitthvert dæmi um að slík lögbrot séu send á viðeigandi stað? Það getur vel verið að einhver sé með betra minni en ég í því en ég man ekki eftir neinu slíku úr fréttum. Ég myndi halda að slíkt mál færi ansi hátt en ég man ekki eftir neinu slíku og því dreg ég þá ályktun frá mínu almenna minni að það hafi ekki gerst. Við vitum samt að slík mál verða til og komast upp á einhvern annan hátt þótt kerfið sjálft sem slíkt ætti að axla þá ábyrgð þegar upp kemst. Í staðinn fer það í feluleik.

Ég get ekki annað en giskað á að sambærilegt hafi átt við með rannsakendur og jafnvel dómara þó að ég sé sammála hv. þm. Brynjari Níelssyni um málsmeðferðina. Ég get ekki mótmælt henni sem slíkri en það eru tvímælalaust atriði sem valda vafa og bera keim af röngum ákvörðunum eða niðurstöðum sem hafa verið hunsaðar. Þegar upplýsingar og gögn eru hunsuð og tekin ákvörðun án þess að taka tillit til allra gagna og það er mögulega röng niðurstaða þá er einhver að gera mistök. Enginn ber ábyrgð á því og um það snýst þetta mál og rosalega mörg önnur mál í íslensku stjórnkerfi, meira að segja inni á þingi ef við förum út í það. Mér hefur skilist að almennt séð sé rosalega erfitt að vera aðili máls í íslenska réttarkerfinu. Ekki fyrir svo löngu síðan kærði þingmaður sem fékk launahækkun þá launahækkun af því að hún var ekki í samræmi við lög um kjararáð og ýmislegt svoleiðis. Hann var ekki aðili máls, hann mátti þetta ekki og var bara vísað frá. Það er gríðarlega erfitt að vera aðili máls. Kannski hefur það einhver áhrif á þetta, ég kann ekki lagabókstafinn það vel, ef það á að vernda réttindi þeirra sem eru aðstandendur fráfallinna meintra sakborninga í þessu máli. Kannski er það hluti af vandamálinu sem þarf að leysa en þessi frumvarpstexti lagar það vandamál ekki ef við eigum einmitt að fara þá dómstólaleið sem hv. þm. Brynjar Níelsson var að tala um, sem ég get alveg tekið undir að á að vera rétt leið.

Ég á dálítið erfitt með nákvæmlega þetta mál. Ég skil hvaðan það kemur en ég held að þegar allt kemur til alls verði þessi hola alltaf. Sama hvað við gerum verður alltaf hola þarna og tilraun til að fylla upp í hana býr jafnvel aðeins til nýja holu. Ég held að við stöndum frammi fyrir því og verðum að horfast í augu við það. Við getum kannski byrjað að bera ábyrgð þegar við áttum okkur á því. Þá held ég að samræðan fari í aðrar áttir og umræður um svona mál, ekki einungis þetta mál heldur svona mál almennt, þegar við getum horfst í augu við að mistök voru gerð. Það er enginn eftir sem getur borið ábyrgð á því. Hvernig getum við þá mokað yfir það? Við gerum það einfaldlega ekki. Ég held að það sé ómögulegt. Ef við viðurkennum það held ég að við getum farið að spyrja annarra spurninga og koma með önnur svör en að eltast sífellt við þann feluleik sem þetta mál virðist einkennast af.

Ég óska þessu máli velfarnaðar og hlakka til að sjá svör um stjórnarskrártenginguna í málinu varðandi fjárheimildir, fjáraukalög og fjárlög. Þó að málið fari ekki þangað væri ég vel til í að sjá fjárlaganefnd skila inn umsögn um þetta mál með tengingu í lög um opinber fjármál og þess háttar.