150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Á þeim 45 árum sem liðin eru hef ég ekki séð neitt sem bendir til þess að meðferð rannsóknar og meðferð dómstóla á málinu hafi á sínum tíma ekki verið í samræmi við réttarfarslög og önnur lög sem þá giltu. Sakborningar voru með verjendur á þessum tíma og þeir höfðu aðgang að dómurum þess tíma. Ekkert kom fram um neitt slíkt, þetta gerist allt löngu síðar, vangaveltur um þetta, raunverulega 20 árum síðar.

Ég vil líka ræða örstutt við hv. þingmann um vangaveltur hans um að ekki sé um að ræða vísun í fjáraukalög eða fjárlög eða eitthvað slíkt. Þetta mál er bara eins og öll önnur dómsmál sem ríkið stendur í, þau skipta sennilega tugum á hverjum tíma, þar sem ríkið viðurkennir jafnvel greiðsluskyldu eða bótaskyldu og um það er bara samið. Málið fer ekkert hingað. Það er bara afgreitt eins og allar aðrar kröfur á hendur ríkinu sem teljast réttmætar, sumar dæmdar. Við þurfum ekkert að ræða hér einhver tæknileg atriði í kringum það.