150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála því og það er einmitt það sem ég er að reyna að vekja athygli á, að ráðherra er þegar með heimild til að greiða þessar bætur, samkvæmt lögum um opinber fjármál, það þarf ekkert sérfrumvarp til þess. Það er það sem við höfum verið að reyna að vekja athygli á. Ef veita á sérstaka heimild til að greiða bætur fellur það samkvæmt stjórnarskrá undir fjárlög eða fjáraukalög.(Gripið fram í.)

Varðandi fortíðina getur það einmitt verið satt að samkvæmt þágildandi lögum hafi rannsakendur og dómarar ekki gert neitt rangt en nú getum við viðurkennt að ýmis réttindi hafi verið brotin, þ.e. samkvæmt þeim lögum sem nú gilda. Við getum veitt auknar heimildir aftur í tímann. (BN: Við getum gert það sem við viljum.) Við getum það. Við getum aftur á móti ekki tekið réttindi af fólki aftur í tímann. Það er sá munur sem við erum að glíma við. Það getur þýtt að brotið hafi verið á þessu fólki samkvæmt því sem við ákveðum núna, að veita fólki auknar heimildir aftur í tímann, en það þýðir ekki að þeir sem einfaldlega störfuðu samkvæmt lögum hafi brotið neitt af sér. Hvort tveggja getur verið satt. Fyrir mér er þetta ekki neitt rosalega flókið. (Gripið fram í.) Takk fyrir það.