150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:51]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þingmanni að ég hafi haldið því fram að menn hafi verið sekir. Öfugt við marga aðra hér í þessum sal þá held ég því aldrei fram, hvorki í þessu máli né öðrum málum, að einhverjir séu sekir. Það er ekki mitt að dæma um það. En það sem er hér og er misskilningur hjá hv. þingmanni er með sýknu Hæstaréttar. Hæstiréttur fékk engan kost á því að taka afstöðu til málsins, sakarefnisins, hvort þessi nýju gögn hefðu áhrif á sakarmatið. Honum var ekki gefinn kostur á því og það finnst mér alvarlegt. Hafi Hæstiréttur viljað sýkna fékk hann ekki einu sinni að taka afstöðu til þess hvaða áhrif það hefði haft á heildarrefsinguna. Þetta var allt tekið úr höndunum á réttinum og mér er algjörlega óskiljanlegt að menn skuli verja það

Ég vil líka benda hv. þingmanni á að ríkisvaldinu svíður aldrei, ég hef aldrei séð ríkisvaldið svo mikið sem klóra sér. En skattgreiðendum svíður. Ég er þó sammála einu, en ég ætla ekki ganga í Viðreisn út af því, og það er að mér finnst vont að þetta mál skuli vera í þingsal. Það hefur verið svo lengi í þingsal. Það hófst með því að Vilmundur Gylfason heitinn dró það inn í þingsal á sínum tíma og gerði málið pólitískt. Síðan hefur það verið pólitískt, alla tíð síðan. Pólitíkin ákveður að taka það upp. Pólitíkin fer fram hjá dómstólunum og pólitíkin ætlar nú að borga bætur og það bætur sem eru í engu samræmi við íslenskan veruleika, ekki einu sinni amerískan. Ég tek ekki þátt í því.