150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að Hæstiréttur mat það svo að niðurstaða endurupptökunefndar stæðist 16. gr. stjórnarskrár. Hann mat það sjálfur, (Gripið fram í.) lagði sjálfstætt mat á það. Það fer ekki gegn sjálfstæði dómstóla. Hæstiréttur mat það sjálfur að ný gögn væru komin. Hann mat það ekki á grundvelli breytinganna sem voru gerðar 1999 heldur á grundvelli greinar um ný gögn sem hefur verið lengi, frá 1974, í lögum um meðferð opinberra mála.

Það hefur ekki enn þá komið fram hvort forsætisráðherra sé ósammála greinargerðinni. Ég held að mikilvægt sé að það komi fram. Ég held að mikilvægt sé að það komi fram hér að forsætisráðherra hafi verið ósammála greinargerð ríkisvaldsins í málinu. (Gripið fram í: Hlustaðu á forsætisráðherra.) Ég tel að það þurfi að vera ótvírætt. Ég tel líka mikilvægt að menn velti fyrir sér hvort hægt sé að draga málið upp úr þeim farvegi sem það er komið í. Öll þessi málsmeðferð í þinginu er á ábyrgð stjórnarflokkanna.

Ég held enn að hægt sé að laga þetta þannig að við getum gert þetta með skýrum hætti og skilaboðin verði skýr til allra málsaðila, til þolenda málsins. Við í Viðreisn munum alla vega ekki verða til þess að tefja málið, þæfa það eða þvæla því, en við munum vilja skila málinu þannig að það gefi ótvíræð skilaboð fyrir framtíðarstjórnmálamenn, fyrir framtíðarembættismenn kerfisins, hvort sem það er innan löggjafar-, framkvæmdar- eða dómsvalds, um að Geirfinnsmál megi aldrei koma upp aftur. Ég held að mikilvægasta verkefnið núna sé að reyna (Forseti hringir.) að taka málið úr þeim farvegi sem það er komið í. (Forseti hringir.) Mér finnst miður, í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið hér, að málið sé einmitt komið í þann pólitíska farveg sem ég var að vona að yrði ekki farinn.