150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

svör við fyrirspurnum.

[15:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson nefndi og hvetja þingheim og forseta til að taka alvarlega þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis hefur komið á framfæri varðandi þann verulega drátt sem oft vill verða á því að fyrirspurnum alþingismanna sé svarað. Þetta er eins og hv. þingmaður sagði óþolandi og lítilsvirðing við þingheim. Ég kom hér síðast upp og benti á að það tók fjármálaráðherra eitt og hálft ár að svara fyrirspurn minni um Arion banka. Nú er ég með aðra fyrirspurn um framkvæmdir Landsbankans, nýjar höfuðstöðvar Landsbankans, fyrirspurn sem ég lagði fram í mars á þessu ári. Þar kom ég m.a. inn á það hvert markaðsvirði lóðarinnar væri, hvort byggingin væri skynsamleg og hvaða rök mæltu með því að byggja á þessum stað. Ekkert svar hefur borist enn þá en á sama tíma og í skjóli nætur í sumar hófust framkvæmdir við þessa sömu byggingu. Þetta er, verð ég að segja, herra forseti, alger lítilsvirðing við Alþingi.