150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Undir liðnum um störf þingsins ætla ég að tala um störf þingsins. Hver þekkir það ekki að við setjum gjarnan lög án þess að þau séu fjármögnuð? Við lofum einhverju, viljum sýna að við stöndum við það en við höfum ekki fjármagn að baki. Við höfum fært ómældar ákvarðanir okkar hér yfir í fangið á sveitarfélögunum og í tilefni af því að við í fjárlaganefnd fengum Þroskahjálp í heimsókn í morgun langar mig að nefna sérstaklega samninginn um notendastýrða persónulega aðstoð, NPA. Hún er kvótastýrð. Það fá ekki allir sem þurfa. Fólki er mismunað eftir búsetu. Það fá ekki allir sem þurfa vegna þess að sveitarfélögin okkar eru mismunandi í stakk búin til að takast á við þau aukafjárútgjöld sem fylgja því að veita fötluðu fólki notendastýrða persónulega aðstoð. Við dæmum þá sem ekki geta fengið hana í enn frekari fjötra en fötlun þeirra hefur þegar gert.

Ég segi ekkert annað en það að við erum að brjóta jafnræði, við erum að mismuna og við erum að færa í fangið á sveitarfélögum loforðin okkar sem við getum ekki staðið við og höfum ekkert fjármagn á bak við.

Mér finnst ekki góður bragur á því, mér finnst hann verulega vondur og það að setja kvóta á það hvaða fatlaða fólk sem þarf á notendastýrðri persónulegri aðstoð að halda fær hana finnst mér algjörlega síðasta sort. Og hver á að segja: Þú færð en ekki þú? Hver er bær til að gera það? Er það svona sem við viljum vinna vinnuna okkar?

Virðulegi forseti. Ég segi nei.