150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Bankarnir meta það nú hvort svigrúm sé til vaxtalækkana eftir að Seðlabankinn lækkaði meginvexti um 0,25 prósentustig í síðustu viku. Síðan í apríl hafa meginvextir lækkað um 1,25 prósentustig og hafa ekki verið lægri á þessari öld. Það á að vera jákvætt fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Forystumenn ASÍ og VR segja hins vegar að bankarnir hafi ekki skilað lækkun til lántaka. Í dag bárust fréttir af því að Íslandsbanki ætli að lækka vexti um 0,15–0,25 prósentustig en ekki 1,25 prósentustig.

Bankarnir kvarta yfir háum álögum ríkisins. Þeir segja þær þrengja að svigrúmi þeirra til vaxtalækkana. Með lægri álögum væri jafnvel hægt að lækka vexti af íbúðalánum um 1 prósentustig að þeirra sögn. Nú er sem sagt búið að lækka meginvexti um 1,25 prósentustig en bankarnir geta ekki lækkað vexti til almennings nema um 0,25 prósentustig af því að þeir eru svo skattlagðir. Það er því ljóst að þeir ætla að auka eigin vaxtamun til að skila betri arðsemi til eigenda. Þetta er sami hópurinn og segir við ríkið: Lækkið gjöldin og skattana, bankaskattinn, innstæðugjaldið og fleira og við skilum því til almennings. Þeir eru ekki beint að sýna það í verki í þessu dæmi.

Niðurstaðan er augljós, herra forseti. Bankarnir ætla greinilega að nota fyrirhugaða lækkun bankaskattsins til að auka eigin arðsemi sem skilar hluthöfum ábata eins og vogunarsjóðunum í Arion banka. Aukin arðsemi mun ekki hjálpa almenningi með lægri gjöldum og vöxtum. Lækkun bankaskatts á að vera bundin þeim skilyrðum að þjónustugjöld bankanna lækki og að þeir bjóði upp á betri vaxtakjör til heimila og fyrirtækja. Verði þessi skilyrði ekki uppfyllt á ekki að lækka bankaskattinn.