150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

vindorka og vindorkuver.

[16:01]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í henni. Við erum að ræða vindorku og þar þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar vegna þess að við þekkjum vindorkuna upp úr hafinu fyrir ofan Búrfell. Ég hef skoðað það sérstaklega og þar erum við að tala um virkjun eða vindmyllu sem er 77 metrar, þ.e. þegar hún er í hæstu stöðu er hún á við Hallgrímskirkjuturn. Því miður er í dag komið tvöfalt eða að nálgast þrefalt stærra skrímsli, eins og ég myndi segja að mörgu leyti, af því að það er ekki orðin nein smásmíði þegar þetta fer nálægt 200 metraum. Því miður skilst mér líka að einmitt svona stórar vindmyllur valdi fugladauða í Noregi, á örnum þar. Þess vegna verðum við að stíga varlega til jarðar og við verðum að sjá til þess að náttúran njóti vafans. Við getum ekki leyft okkur að hunsa fuglalíf. Það er líka annað í þessu sem er mjög gott við vindmyllu sem ég var að skoða í sambandi við vindmylluna upp á Haki. Hún skilar mjög góðu rafmagni á veturna þegar er lágmarksframleiðsla í vatnsbúskapnum og síðan eru sumrin betri en þá er fuglalífið meira. Þetta er samspil sem við verðum að hugsa út í og þess vegna segi ég að við verðum að passa upp á að náttúruverndin sé höfð að leiðarljósi. Á sama tíma og þetta er vistvæn orka sem er nauðsynleg verðum við að sjá til þess að það sé gert í sátt við náttúruna.