150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Páll Magnússon) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum, um sölu haldlagðra og kyrrsettra eigna, muna og fleira. Þetta er nefndarálit frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Jósepsdóttir og Rögnu Bragadóttur frá dómsmálaráðuneyti.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Frumvarpið er liður í því að bregðast við tilmælum alþjóðlega fjármálaaðgerðarhópsins FATF, Financial Action Task Force, sem gerði úttekt á vörnum Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á árinu 2017, en Ísland er aðili að FATF. Frumvarpinu er ætlað að koma til móts við eitt þeirra atriða sem FATF gerði athugasemd við í úttekt sinni, þ.e. skort á reglum um hvernig eigi að meðhöndla muni og eignir sem hafa verið haldlagðar eða kyrrsettar af þar til bærum yfirvöldum.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að frumvarpið sé mikilvægur liður í að styrkja íslenska löggjöf og framkvæmd þegar kemur að málaflokknum.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á frumvarpinu sem eru tæknilegs eðlis og leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Á eftir orðunum „sölu muna eða eigna“ í 2. efnismálsgrein 1. gr. komi: sbr. 1. mgr.

2. Fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (sala haldlagðra og kyrrsettra eigna og muna).“

Jón Steindór Valdimarsson skrifar undir nefndarálit þetta með fyrirvara um að stuttur fyrirvari og hraði á afgreiðslu þessa máls og þar með sá tími sem nefndin hafði til að fjalla um málið endurspegli ekki þau vinnubrögð sem nefndin vilji hafa við umfjöllun og afgreiðslu mála. Nefndinni sé þó vorkunn þar sem miklir hagsmunir séu í húfi en átelja verði harðlega andvaraleysi og seinagang ríkisstjórnarinnar við undirbúning málsins.

Anna Kolbrún Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fastanefnda Alþingis.

Undir þetta rita sá sem hér stendur, Páll Magnússon, Andrés Ingi Jónsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, með fyrrgreindum fyrirvara, og Þórarinn Ingi Pétursson.