150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að sá flýtir sem er á afgreiðslu þessa máls er ekki til fyrirmyndar og er eitthvað sem þingið ætti að forðast í hvívetna. Hins vegar víkur hann sérstaklega að því hverjir hafi verið inntir eftir skoðun sinni af hálfu nefndarinnar. Þar nefnir hann þá aðila sem komu að samningu frumvarpsins og var haft samband við eftir embættismannaleiðum. Við fengum nefndarritara til að sjá um það. En það var engum meinað að leggja til gestakomur. Það var rætt á fundi allsherjar- og menntamálanefndar og þar man ég ekki betur en að þingmaðurinn sitji eins og sá sem hér stendur og mig langar að spyrja: Hvaða gesti lagði hv. þingmaður til að kæmu á fund til að rannsaka málið betur sem nefndin varð ekki við? Eða var það kannski þannig að hann, eins og við hin, lagði ekki til neinar gestakomur?