150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:37]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú óþarfa viðkvæmni hjá þingmanninum að líta svo á að ég sé að varpa ábyrgð á meðferð málsins yfir á hann. En ég tek undir með þingmanninum, þessi málsmeðferð er engan veginn til fyrirmyndar. Svona á ekki að gera frumvarp að lögum. En í þessu tilviki var ákveðið — og nú vantar mig íslensku orðin fyrir „above our paygrade“ — á æðri stöðum í stjórnsýslunni, fyrir ofan okkur hv. þingmenn, að einmitt þetta mál fengi gott veður. Við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson erum jafnsettir undir það.

Það hefði örugglega verið hægt að láta sér detta í hug einhverja gesti sem hefðu varpað öðru ljósi á málið. Þingmaðurinn gagnrýndi ekki að við hefðum ekki kallað til neina gesti heldur að við hefðum kallað til einhliða sjónarmið frá fólki sem kom að samningu frumvarpsins. Það er góðra gjalda vert og þingmanninum hefði alveg eins og öðrum í nefndinni getað hugkvæmst einhverjir aðilar sem hefðu getað brugðist við með stuttum fyrirvara, annað eins hefur nú gerst á þingi, og mætt fyrir nefndina og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. En það er ekki hægt að láta eins og sá möguleiki hafi engan veginn verið fyrir hendi í umfjöllun nefndarinnar. Það þykir mér bara ekki heiðarleg framsetning.