150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á þeim skamma tíma sem við fengum veit ég ekkert hvaða gesti við hefðum átt að kalla til, ég bara veit það ekki. Þetta var þannig í gær að ég mætti á fund allsherjar- og menntamálanefndar og vissi ekki að málið yrði á dagskrá. Því hafði verið bætt við dagskrána skömmu áður. Ég hafði ekki tekið eftir því, ég hafði kynnt mér dagskrána of snemma. Ég nefndi það í upphafi fundarins í samskiptum mínum við formann nefndarinnar að ég hefði ekki lesið málið þar sem ég hefði ekki vitað að það væri á dagskrá fyrr en það var komið á dagskrá og gestirnir voru á leiðinni inn. Þannig var það. Í kjölfar þeirrar gestakomu veltum við fyrir okkur hvað gesti við ættum að fá. Ég verð að viðurkenna að ég er bara ekki betur gerður maður en svo að ég þarf aðeins meiri tíma en þetta til þess að velta því fyrir mér hvaða gesti eigi að taka inn til að fjalla um mál sem ég hef ekki einu sinni haft færi á að lesa. Ég er bara ekki betri þingmaður en það.

Látum það liggja á milli hluta hver beri ábyrgð á hverju, ég tel það ekki viðkvæmni af minni hálfu en jafnvel þótt svo sé stendur eftir að það komu ekki fram nein sjónarmið nema þeirra sem unnu að frumvarpinu. Burt séð frá því hverjum það er að kenna þá er staðan sú. Það er meðal ástæðnanna fyrir því að minni hlutinn getur ekki stutt þetta mál að svo stöddu. Segjum bara að gamni að það sé mér sjálfum að kenna eða minni hlutanum en þá er það samt staðan. Þetta er samt ekki nógu góð þingleg meðferð og gerir að verkum að minni hlutinn getur ekki stutt málið. Þannig liggur þetta.

Að því sögðu skil ég mætavel stöðuna sem þingmenn stjórnarmeirihlutans eru komnir í, að þurfa að samþykkja eitthvert mál sem enginn vill meina að fái nógu góða þinglega meðferð. Ég skil alveg stöðuna en sannfæring mín er sú að einhvern tímann verðum við að segja: Stopp, nei, við eigum ekki að leyfa okkur þessi vinnubrögð.

Þetta er ekki í fyrsta skiptið og sennilega ekki það síðasta sem hingað kemur inn mál sem hefði getað komið miklu fyrr inn og við þurfum að samþykkja á augabragði og fara að kýta um málsmeðferð frekar en efnisinnihald frumvarpsins eins og við ættum að gera ef þinglega meðferðin væri nógu góð.

Ég skil við þetta svona, virðulegi forseti, en ég gleymdi að nefna áðan að minni hlutinn samanstendur af þeim sem hér stendur og hv. þm. Margréti Tryggvadóttur.