150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

meðferð sakamála.

170. mál
[16:41]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli heldur ræða þessa hluti í næsta máli sem er að sjálfsögðu sömu vanköntum háð, bæði hvað varðar flýti og eðli. Ég kem hingað upp einfaldlega vegna orða sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson lét falla um að málsmeðferðin væri ekki til fyrirmyndar. Ég vil leyfa mér að andmæla þeirri skilgreiningu. Við erum að afgreiða mál þar sem hagsmunirnir sem skarast á eru stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna andspænis því að einhver fyrirtæki úti í bæ þurfi að skila meiri pappírsvinnu, eiga erfiðara með viðskipti sín og við skömmumst okkur svolítið á alþjóðavettvangi fyrir að halda áfram að vera töluvert illa séð af FATF og teljumst af þeirra hálfu ekki uppfylla skuldbindingar okkar. Ef á meta þá hagsmuni þá finnst mér eðlilegt að skerðing eða inngrip í réttindi borgaranna hafi forgang fram yfir einhver óþægindi. Að halda því fram að málsmeðferðin sé ekki til fyrirmyndar finnst mér allt of vægt til orða tekið. Mér finnst þessi málsmeðferð óásættanleg. Þess vegna erum við ósammála þessu máli og líka því næsta.

En þetta var nú bara smjörþefurinn af því sem á eftir kemur. Ég vildi bara koma þessu á framfæri svo það sé skrásett í þessu máli líka.