150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[16:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú er það svo að 6. apríl 2018 kom þessi svarta skýrsla um stöðu Íslands þegar kemur að vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Það er svolítið góður tími síðan og stjórnvöld hafa unnið að því að reyna að bæta stöðu landsins hvað þetta varðar. Það varð ljóst fyrir nokkrum vikum að Ísland þyrfti að gera betur og það þyrfti að fara í þetta mál sem við ræðum. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn fer fram á það við minni hlutann að hann taki þátt í þessu og komi ekki í veg fyrir að málið verði afgreitt hér á innan við sólarhring. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það þarf að fara í þetta mál og ég vil ekki taka áhættu á því að það fari ekki í gegn á tilsettum tíma. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki virðingarleysi gagnvart stjórnarandstöðunni og einhvern veginn gengið að henni vísri að hafa ekki tekið fulltrúa stjórnarandstöðunnar með í að vinna málið, því að það er alveg ljóst að það þurfti að vinna það. Sú vinna hefur staðið í einhvern tíma. Af hverju tók stjórnarmeirihlutinn ekki stjórnarandstæðinga með sér í undirbúning á þessu þingmáli fyrst að það fer ekki í gegn nema með því að stjórnarandstaðan sætti sig við það að fá ekki fullnægjandi upplýsingar um allar hliðar málsins frá öllum sem mögulega gætu gefið upplýsingar og skýrt myndina?