150. löggjafarþing — 14. fundur,  9. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[17:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni höfum við í Samfylkingunni gagnrýnt harðlega hvernig að þessu máli er staðið. Í umræðum um þessi mál höfum við í nefndinni reyndar séð að hægt hefði verið að kalla stjórnarandstöðuna fyrr að borðinu en það var ekki gert. Við höfum ekki fengið tíma til að velta við öllum steinum hvað þetta mál varðar. Það má vera að það virki allt saman mjög vel, við bara vitum það ekki.

Mér finnst, herra forseti, að þegar hæstv. ríkisstjórn fer fram á slíka samvinnu við stjórnarandstöðuna, að hún gefi afslátt eins og hér er ætlast til, eigi að hafa samband við hana alveg frá byrjun þegar verið er að vinna með málið og ljóst er í hvað stefnir. Við í Samfylkingunni munum sitja hjá við afgreiðslu þessa máls en þar sem breytingartillögurnar eru til bóta samþykkjum við þær.