150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[17:47]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir. Ásamt mér flytja tillöguna hv. þingmenn Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson. Tillagan var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi og var þá 807. mál.

Kostnaður við krabbameinsmeðferð er mörgum þungur baggi og er kostnaðarhlutdeild krabbameinssjúklinga í lyfjakostnaði og allri heilbrigðisþjónustu hér á landi há og hækkar ár frá ári. Kostnaðurinn reynist sjúklingum oft mestur í upphafi veikinda, þegar þeir eru ekki farnir að njóta niðurgreiðslu frá hinu opinbera, en það getur tekið marga mánuði, allt eftir því hvað einstaklingurinn hefur áunnið sér í réttindi. Á þeim tíma fá sjúklingarnir engar niðurgreiðslur, hvorki á meðferðum né hjálpartækjum sem þeir kunna að þurfa. Afleiðingar krabbameinsmeðferða eru þær að einstaklingar þurfa oft að leggja út fyrir ýmsum vörum vegna aukaverkana, t.d. kaupum á hárkollum og/eða gerð varanlegra augabrúna vegna hármissis og einnig er kostnaður við viðtalsmeðferðir sem bjóðast oft fjarri heimabyggð. Kostnaður vegna kaupa á ýmiss konar hjálpartækjum og kostnaður við sjúkraþjálfun getur einnig verið mikill. Með því að gera meðferðina sjálfa gjaldfrjálsa eiga sjúklingar fjárhagslega auðveldara með kaup á nauðsynlegum aukahlutum og að greiða kostnað við ferðalög, svo að ekki sé minnst á þá aðstoð sem nauðsynleg er fyrir fjölskyldu viðkomandi. Samanlagður kostnaður getur því orðið ansi mikill, svo mikill að þess eru dæmi að vegna fjárhags síns taki fólk þá ákvörðun að kaupa ekki þá þjónustu sem talin er nauðsynleg. Ofan á útlagðan kostnað bætist síðan tekjutap sjúklingsins og oft og tíðum fjölskyldu.

Rúmlega einn af hverjum þremur greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og á hverju ári greinast að meðaltali 1.450 ný tilfelli. Allt til síðustu aldamóta fjölgaði tilfellum ár frá ári óháð hækkandi meðalaldri og fjölgun þjóðarinnar. Undanfarinn áratug hefur tíðnin hins vegar lækkað og er ein meginástæðan fækkun reykingamanna sem skilar sér beint í lægri tíðni lungnakrabbameins og fleiri krabbameina.

Með betri greiningartækni og áhrifaríkari meðferðarúrræðum hafa lífslíkur aukist verulega. Í árslok 2015 voru á lífi meira en 13.000 Íslendingar sem greinst hafa með krabbamein. Um 66% karla og 70% kvenna sem fá krabbamein lifa í fimm ár eða lengur eftir greiningu sjúkdómsins en það er breytilegt eftir tegundum krabbameina. Fyrir fjórum áratugum voru sambærileg hlutföll einungis 27% fyrir karla og 44% fyrir konur. Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið hjá körlum og brjóstakrabbamein hjá konum. Um 200 karlar og um 200 konur greinast með þessi mein ár hvert.

Skurðaðgerð er algengasta meðferð ef um afmörkuð föst æxli er að ræða. Oft er meðferðin samsett af skurðaðgerð, lyfjameðferð, geislameðferð og/eða hormónameðferð. Blóðkrabbamein er oftast meðhöndlað með lyfjum. Tiltölulega ný meðferðarúrræði eru sértæk lyf sem beinast að tiltekinni starfsemi frumunnar og draga þannig úr vexti og dreifingu sjúkdómsins.

Að lokum vil ég segja þetta: Flutningsmenn telja brýnt að ráðist verði í að gera krabbameinsmeðferðir á Íslandi gjaldfrjálsar til þess að allir geti fengið viðeigandi meðferð við sjúkdómnum óháð efnahag. Hér á landi eru bestu mögulegu úrræði þegar notuð við krabbameinsmeðferðir og myndi breytingin því ekki leiða til þess að sjúklingar veldu sér dýrari meðferðir.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillagan fari til velferðarnefndar Alþingis.