150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[17:56]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Ég vona að ég skilji það rétt að þetta sé fyrsta skrefið í þeirri viðleitni að gera heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa fyrir almenning.

Mig langar aðeins að halda áfram með umræðuna með því að beina sjónum að lyfjakostnaði. Hv. þingmaður nefndi að við veittum almennt bestu mögulegu meðferðina við krabbameini hér á landi og þess vegna væri ekki hætta á að farið yrði í frekari lækningar eða jafnvel oflækningar þó að það sé frjálst. Staðreyndin er hins vegar sú að þróun í krabbameinslyfjum er alveg gríðarlega mikil og komin eru á markað lyf sem eru allt að því sérsniðin að genasamsetningu einstaklinga þannig að þau eru gríðarlega dýr en jafnframt mjög áhrifamikil.

Þykir hv. þingmanni mögulegt að ef þetta yrði að veruleika og allar krabbameinsmeðferðir yrðu gjaldfrjálsar yrði fjármagnið betur veitt í annað en að nota þessi dýru lyf? Þetta er vissulega ekki mjög háar upphæðir á einstakling en það safnast þegar saman kemur. Eins og hv. þingmaður kemur inn á er þetta sjúkdómur sem margir fá en við fáum lyfin ekki endilega til landsins, a.m.k. ekki jafn hratt og örugglega og á árum áður. Það er sá napri veruleiki sem við búum við. Getum við að mati þingmanns farið að nota fjármagnið í að greiða niður allar krabbameinsmeðferðir fyrir alla, m.a. þá sem geta lagt eitthvað af mörkum? Þá væri minni peningur eftir í dýru lyfin sem geta bókstaflega skipt ákveðna einstaklinga öllu.