150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

niðurfelling ábyrgða á eldri námslánum.

179. mál
[18:16]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu. Það er löngu tímabært. Við höfum á Íslandi haft undarleg kerfi í gegnum tíðina á lána- og skuldamálum. Þetta ábyrgðarmannakerfi er sem betur fer að mestu liðið undir lok, alla vega á nýrri lánum. En þetta er náttúrlega sérstaklega slæmt með námslán því að fólk var eðli málsins samkvæmt oft að taka þau ungt að árum og þeir sem skrifuðu undir voru kannski vinir eða jafnvel þáverandi tengdaforeldrar eða tengdaamma eða einhver sem tengdist viðkomandi á þeim tímapunkti í lífinu. En svo heldur náttúrlega lífið áfram og skuldirnar hjá LÍN, alla vega það sem ég skulda LÍN, eru mjög dularfullar því að upphæðin lækkar ekki nokkurn skapaðan hlut, alveg sama hvað ég borga. Það er alltaf eitthvað þarna sem er nokkurn veginn sama upphæð ár frá ári, sama hvað ég geri. Það er mjög ósanngjarnt að þetta lendi á einhverjum öðrum en lántakanum. Best væri auðvitað að koma hér á kerfi þar sem við værum með námsstyrki. Ég hef alla vega ráðlagt mínum börnum að taka ekki lán hjá LÍN.

Ég held að það sé löngu tímabært að við drífum í þessu og losum fólk úr skuldaálögum sem það er oft í vegna fólks sem er þeim algjörlega óviðkomandi. Ég hef heyrt mörg dæmi, staðfest dæmi, um að einhver hafi skrifað upp á fyrir vin, svo er vinurinn bara fluttur eitthvert til Ameríku og það veit jafnvel enginn hvar hann er eða hvort hann sé lífs eða liðinn, en skuldin er áfram á einhverjum sem viðkomandi hefur ekki verið í sambandi við í áratugi. Þetta þarf að laga.